Stúlkurnar í 7 mánaða varðhald

Tvær íslenskar stúlkur, 18 ára gamlar, sem handteknar voru í Prag fyrr í vikunni fyrir að vera með fíkniefni í fórum sínum hafa verið úrskurðaðar í sjö mánaða gæsluvarðhald.

Tékkneski fréttavefurinn Idnes.cz sagði frá því í gær að tveir ungir Íslendingar hefðu verið handteknir fyrir fíkniefnasmygl á Vaclav Havel-flugvellinum í Prag. Í fréttinni kom fram að átta kíló af kókaíni hefðu verið falin í farangri Íslendinganna og að götuvirði efnanna í Tékklandi væri áætlað um 12 milljónir tékkneskra króna, eða um 78 milljónir íslenskra króna.

Í fréttinni segir að stúlkurnar hafi flogið til Prag frá Sao Paulo í Brasilíu með millilendingu í München í Þýskalandi. Þá er haft eftir Jirí Barták, talsmanni tékknesku tollgæslunnar, að handtakan sé afrakstur samvinnu tékkneskra og þýskra yfirvalda.

Málið er í rannsókn hjá yfirvöldum ytra.

Hér má sjá myndband þar sem leitað er í farangri stúlknanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert