Ekkert flogið innanlands

Veður fer versnandi fyrir norðan og vaxandi skafrenningur er  norðaustanlands. Ekkert hefur verið flogið innanlands í morgun en næst verður athugað með flug klukkan 11:30. Óveður er undir Eyjafjöllum, á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi, Suðurstrandarvegi og Mosfellsheiði.

Vindur gengur niður sunnan- og suðvestanlands um og fyrir hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Spáð er ofankomu fyrir norðan frá því um hádegi og afar lítið skyggni verður víða frá Eyjafirði og austur um á norðanverða Austfirði. 

Á láglendi norðaustan- og austantil eða neðan 100-200 metra nær hins vegar að hlána þegar kemur fram á daginn.

Á Vesturlandi er stórhríð á Fróðárheiði og snjóþekja. Hálka er á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku, Vatnaleið og víðar.

Hálka er víða á Vestfjörðum og snjókoma á sunnanverðum fjörðunum.

Í Húnavatnssýslum eru hálkublettir á hringveginum en hálka víða á útvegum. Annars er víðast hvar hálka eða snjóþekja á Norður- og Norðausturlandi.

Laxá í Aðaldal flæðir yfir veg við Garðsnúp og hefur hámarkshraði þar verið minnkaður. Eru vegfarendur beðnir að sýna varúð. Óveður er á Mývatnsöræfum og þæfingsfærð. Ófært er um Hólasand og eins að Dettifossi.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum vegum og sumstaðar skafrenningur. Ófært er á Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði og Öxi.

Á Suðausturlandi eru hálkublettir á fáeinum köflum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert