Einungis eitt útkall hefur komið til Slysavarnafélagsins Landsbjargar í morgun. Björgunarsveitarmenn festu þakplötur á hús í Grindavík en mjög hvasst er í Grindavík og á Grindavíkurvegi, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum.
Ekki hefur komið til þess að kalla út björgunarsveitarfólk á höfuðborgarsvæðinu en foreldrar voru beðnir um að fylgja börnum sínum til skóla í morgun.
Mjög fá skip á sjó enda bræla á miðunum, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.
Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar gengur vindur niður sunnan- og suðvestanlands um og fyrir hádegi. Vaxandi skafrenningur er norðaustanlands, ofankoma að auki frá því um hádegi og afar lítið skyggni verður víða frá Eyjafirði og austur um á norðanverða Austfirði. Á láglendi norðaustan- og austantil eða neðan 100-200 metra nær hins vegar að hlána þegar kemur fram á daginn.
Vegir eru að mestu auðir á Suðurlandi en óveður er undir Eyjafjöllum. Óveður er á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi.
Á Vesturlandi er stórhríð á Fróðárheiði og hált. Hálka er líka á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku, Vatnaleið og víðar.
Hálka er víða á Vestfjörðum en aðalleiðir þokkalega færar miðað við árstíma.
Í Húnavatnssýslum og Skagafirði er víða nokkur hálka en sumstaðar þæfingur eða þungfært á útvegum.
Það er hálka eða snjóþekja víða á Norðausturlandi. Víkurskarð er þungfært. Laxá í Aðaldal flæðir yfir veg við Garðsnúp, hraði hefur verið tekinn niður í 50 km og eru vegfarendur beðnir að sýna varúð. Ófært er um Hólasand og eins að Dettifossi. Þæfingsfærð er á Mývatnsöræfum.
Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum vegum. Varað er við flughálku á Oddsskarði en verið er að hálkuverja. Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar.
Á Suðausturlandi eru hálkublettir á fáeinum köflum og raunar hálka á Mýrdalssandi.