Þaulskipulagt fíkniefnasmygl

Kókaínið var falið innan undir klæðningu í töskunni.
Kókaínið var falið innan undir klæðningu í töskunni. Ljósmynd/celnisprava.cz

Talið er að meint fíkniefnamisferli tveggja íslenskra stúlkna sem handteknar voru í Tékklandi hafi verið þaulskipulagt. Þær hafa verið úrskurðaðar í sjö mánaða gæsluvarðhald.

Stúlkurnar voru handteknar á flugvellinum í Prag síðastliðinn miðvikudag en í farangri þeirra fundust tæp átta kíló af kókaíni. Fulltrúi fíkniefnadeildar tollgæslu og lögreglu í Prag segir í samtali við RÚV að málið sé sérstakt að hans mati vegna ungs aldurs stúlknanna.

Þá kemur fram í frétt RÚV að rannsókn lögreglunnar í Prag bendi til þess að kókaínsmyglið sé umfangsmikið. Hún rannsakar nú hvert hlutverk stúlknanna hafi verið í fléttunni. Að sögn lögreglumannsins bendir ýmislegt til þess að stúlkurnar séu fórnarlömb glæpamanna. Hins vegar sé ljóst að þeir sem pökkuðu efninu hafi gert það áður og að handbragðið sé kunnuglegt.

Stúlkurnar tvær urðu átján ára á þessu ári og fóru í frí til Svíþjóðar í ágúst, segir faðir annarrar þeirra við RÚV. „En svo ílengjast þær og við förum svona að forvitnast eftir þessu og svo loksins þegar við fáum svör, svolítið löngu seinna, þá uppgötvum við að þær eru komnar til Spánar. Og okkur fer að furða og þær segjast alltaf vera á leiðinni heim aftur og það næsta sem við vitum er að þær eru staddar í Brasilíu.“ 

Faðirinn er í ítarlegu viðtali í Kastljósi Sjónvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert