Nokkrar konur, sem fengu PIP-sílikonpúða í brjóst sín, hafa stefnt Jens Kjartanssyni lýtalækni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Ekki er um hópmálsókn að ræða, heldur er um að ræða aðskildar málsóknir kvennanna. Nokkrum aðilum er stefnt í málinu.
Ekki liggur fyrir hvenær málin verða tekin fyrir.
Þetta staðfestir Saga Ýrr Jónsdóttir, sem fer með mál nokkurra kvennanna. Hún segist lítið geta tjáð sig um málið, þar sem stefna liggi fyrir og segist ekki geta sagt hversu margar konur er um að ræða.
Hún segist heldur ekki geta skýrt frá því hverjum, fyrir utan Jens, sé stefnt en segir að um sé að ræða innlenda aðila.
„Það eina sem ég get sagt núna er að ég mun fara fram á lokað þinghald,“ segir Saga Ýrr. „Og ég vona að það náist fram.“