Nauðsynlegt að efla verk- og tækninám

Frá blaðamannafundi starfshópsins. Skúli Helgason þingmaður, sem sést hér til …
Frá blaðamannafundi starfshópsins. Skúli Helgason þingmaður, sem sést hér til vinstri á myndinni, er formaður starfshópsins mbl.is/Golli

Vinna þarf tímasetta áætlun um eflingu verk- og tæknináms á framhaldsskóla- og háskólastigi. Nú er hlutfall framhaldsskólanema í verk- og tækninámi 33% en stefna á að að það verði 40% árið 2020. Hlutfall háskólanema í tæknigreinum er nú 9,3%, en stefnt er að 16% árið 2020.

Til að þetta verði mögulegt þurfa stjórnvöld að móta aðgerðaáætlun í samráði við skóla og aðila vinnumarkaðarins. Einnig þarf að kynna þá náms- og starfsmöguleika sem eru til staðar, í boði eru um 100 námsbrautir í verk- og tækninámi á mismunandi skólastigum. Þá þarf að auka hlut þessara greina í aðalnámskrá grunnskóla og leggja áherslu á samvinnu skóla og atvinnulífs í nærumhverfinu og skólar gætu nýtt verklega aðstöðu fyrirtækja til náms.

Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi starfshóps á vegum forsætisráðuneytisins þar sem kynntar voru breyttar áherslur í menntamálum, samþættingu menntastefnu og atvinnustefnu og eflingu verk- og tæknináms.

Vilja greina mannaflsþörf

Að auki leggur starfshópurinn til að unnin verði ítarleg greining á mannaflsþörf á vinnumarkaði til lengri og skemmri tíma.

Skýrsla starfshópsins var kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun og þar var samþykkt að fela mennta- og menningarmálaráðuneytinu, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og velferðarráðuneytinu að fara nánar yfir tillögurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert