Ekki vitað hvers vegna Pólfoss strandaði

Pólfoss
Pólfoss Af vef Eimskip

Engar skemmdir eru sjáanlegar á frystiskipinu Pólfossi, sem strandaði við Austbø í norska skerjagarðinum fyrir Norður-Noregi skömmu fyrir klukkan sex í morgun. Ekki er vitað hvað olli strandi skipsins, sem er í eigu Eimskipafélagsins.

„Við erum að bíða svara  frá skipstjóranum og bíða flóðs. Það er líklegt að skipið komist á flot þegar það verður, en það er dráttarbátur á svæðinu,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips.

Að sögn Ólafs liggur skipið í sandfjöru og ekki hefur orðið vart við neinn olíuleka.

Er vitað hvers vegna skipið strandaði? „Ekki ennþá. En það verður rannsakað um leið og það er komið á flot.“

Í frétt á vefsíðu norska dagblaðsins Helgelands Blad segir að Pólfoss hafi siglt frá Stamsund í Noregi um sex-leytið í gærkvöldi. 

Í frétt norska ríkissjónvarpsins NRK segir að níu manns hafi verið um borð og að engan hafi sakað. Skipið hafi flutt 1800 tonn af frosnum fiski. 

Frétt mbl.is: Pólfoss strandaður við Noreg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert