Framburður sakborninga og vitna í máli ákæruvaldsins gegn Annþóri Kristjáni Karlssyni, Berki Birgissyni og tíu öðrum er á þá leið að fjölskylduerjur hafi verið kveikjan að skipulagðri líkamsárás, þ.e. samkvæmt ákæru, eða slagsmálum sem brutust út.
Um er að ræða 1. ákærulið í málinu. Þar er níu karlmönnum gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa að kvöldi 4. janúar 2012 í íbúð í Mosfellsbæ veist að fjórum mönnum. Í ákæru segir að mennirnir hafi sameiginlega tekið ákvörðun um að fara þangað vopnum búnir. Fyrstir inn í húsið hafi farið Annþór og Börkur, en þeim var boðið inn af húsráðanda. Á meðan biðu hinir fyrir utan.
Annþór hafi svo gefið hinum merki um inngöngu og þeir farið inn í heimildarleysi. Þar hafi þeir veist að húsráðanda og öðrum með hættulegum vopnum og bareflum, þar á meðal sleggju, handlóðum og golfkylfum.
Húsráðandi hlaut við þetta þverbrot í gegnum nærhluta sköflungsbeins hægri fótleggs og opinn skurð á framanverðum sköflungi, brot á hægri hnéskel og fjölda annarra áverka. Aðrir hlutu minni áverka.
Framburður sakborninga og vitna hvað 1. ákærulið varðar var á svo gott sem einn veg. Og hjá þeim kom fram að atburðarásin hófst raunar fyrr en í ákæru greinir.
Þannig er að einn sakborninga er barnsfaðir stjúpsystur húsráðandans í Mosfellsbæ. Sambandið milli föðurins og móðurinnar hefur verið stirt og miklar erjur þeirra á milli. Stjúpbróðirinn, húsráðandinn, hefur svo jafnan tekið þátt í þeim erjum og þær leitt til áfloga milli barnsföðurins og stjúpbróðurins.
Í framburði eins vitnisins kom fram að slíkar erjur hafi komið upp í byrjun janúar 2012 og sakaði vitnið barnsföðurinn um að hafa lagt hendur á barnsmóður sína. Það hafi orðið til þess að stjúpbróðirinn hafi 4. janúar, ásamt þremur öðrum, bankað upp á hjá barnsföðurnum þar sem hann bjó í Breiðholti.
Annar maður, einnig sakborningur í málinu, kom hins vegar til dyra og var sá laminn í höfuðið með gaddakylfu. Barnsfaðirinn kom aðvífandi og fékk yfir sig glerbrot þegar stjúpbróðirinn sveiflaði kylfunni í glugga við hlið hurðarinnar. Að því loknu fóru stjúpbróðirinn og félagar hans af vettvangi.
Taka ber fram að um þetta er ekki deilt í málinu.
Maðurinn sem varð fyrir högginu fór ásamt hinum á slysadeild. Þeir hringdu nokkur símtöl og varð úr að þeir ætluðu að heimsækja stjúpbróðurinn á heimili hans í Mosfellsbæ. Sakborningar sögðu allir að tilgangurinn hefði verið að ræða við hann um bætur vegna árásarinnar.
Um slíkar bætur sagði Annþór: „Þetta gengur svona fyrir sig í þessum heimi, ef menn eru beittir órétti þá eru borgaðar bætur. [...] Það er venjan að menn fari til þess sem gerði á hlut manns og fái greitt.“
„Ég nennti ekki að bíða eftir því að hausinn á mér væri saumaður saman,“ sagði sá sem fyrir högginu varð fyrir dómnum. Hann sagðist jafnframt oftsinnis hafa þurft að ganga á milli þegar erjur komu upp á milli stjúpbróðurins og barnsföðurins.
Meðal annars lá leiðin inn í Hafnarfjörð þar sem fleiri félagar voru sóttir. Þar voru einnig staddir Annþór og Börkur.
Áður en lengra er haldið er vert að geta framburðar Annþórs og Barkar, og allra annarra sakborninga um þátt þeirra í umræddum ákærulið.
Þeir sögðust hafa heyrt af því sem gerst hafði. Annþór hefði hins vegar áður lánað stjúpbróðurnum 50 þúsund krónur og vildi fá að ræða við hann fyrir heimsóknina til þess að rukka peninginn, svona til þess að sá yrði ekki blankur við að greiða bætur. „Við vildum fá okkar pening á undan, því það var peningur sem ég lánaði honum.“
Það hafi verið þeirra eina aðkoma að málinu. Þeir hafi viljað fá þessar 50 þúsund krónur. Hvað varðar þátt hinna þá hafi þeir enga hagsmuna haft að gæta þar og ekki skipt sér af því.
Óumdeilt er í málinu að Annþór og Börkur heimsóttu stjúpbróðurinn í Mosfellsbæ áður en hinir mennirnir komu og ræddu um umræddar 50 þúsund krónur. Þá er ekki deilt um það að Annþór hringdi í strákana sem voru fyrir utan og sagði þeim að koma inn.
Fyrir utan húsið í Mosfellsbæ voru sjö eða átta menn. Það er aðeins á reiki því upplýst var um einn félagann við meðferð málsins en hann er ekki ákærður.
Sakborningar halda því fram að Annþór hafi nefnt það við húsráðanda, stjúpbróðurinn, að mennirnir væru fyrir utan og vildu fá að ræða um árásina fyrr um daginn. Húsráðandi hafi þá gefið leyfi fyrir því að þeim yrði hleypt inn.
Húsráðandi og þeir þrír menn aðrir sem voru í húsinu þvertóku hins vegar fyrir að slíkt leyfi hefði verið gefið og sögðu að innganga mannanna hefði komið þeim mikið á óvart.
Áður en farið verður yfir átökin inni í húsinu má geta þess að Annþór og Börkur voru báðir spurðir út í ástandið í húsinu áður en sjömenningarnir komu inn.
„[húsráðandi] var með lítinn hamar, karatekylfu og ninjastjörnu í beltinu. [G] var með brúna „Spánarkylfu“ og [GS] var með hafnaboltakylfu úr áli. [S] var ekki vopnaður né [B] en flestir voru þeir berir að ofan og á svakalegu „swingi“ og útúrdópaðir,“ sagði Annþór og lýsing Barkar var á sömu lund. „Þeir voru allir vopnaðir og frekar æstir. Anni var aðallega að reyna tala um þennan 50 þúsund kall en það komst ekki annað að hjá [húsráðanda] en að tala um slagsmálin fyrr um daginn. [...] Hann var bara að tala um þessi slagsmál, ber að ofan og sveiflandi þessum hamri.“
Umræddir menn komu fyrir dóminn í morgun og þvertóku fyrir það að hafa verið með umrædd vopn. Einhverjir tóku fyrir að hafa verið undir áhrifum þó aðrir hafi viðurkennt það og sagst hafa verið á „löngu djammi“.
Mennirnir réðust til inngöngu þegar Annþór gaf þeim merki, hvort sem það var með leyfi húsráðanda eða ekki. Einn þeirra var vopnaður sleggju með plasthaus og viðurkenndi það. Aðrir sögðust ekki hafa verið vopnaðir en að þeir hafi fundið golfkylfur og annað lauslegt á heimilinu. „Útidyrahurðin opnaðist, við fórum inn og það brutust út slagsmál. Ég tók ekki þátt í neinum líkamsmeiðingum,“ sagði einn sakborninga. Spurður nánar út í það hvernig slagsmálin hófust sagði hann: „[B] kom sparkandi á móti okkur og þá hófust slagsmálin.“ Þá var hann beðinn um að lýsa hlutverki hvers og eins í slagsmálunum: „Hlutverki? Þetta var ekki hlutverkaleikur,“ sagði hann þá reiður.
Þegar annar sakborningur var beðinn um að lýsa slagsmálunum sagði hann: „Það var bara allt í kaos, brotin ljós og borð. [...] Það sást ekkert, það var myrkur.“ Og sá þriðji sagði: „Ég braut spegil. Það var nú ekki meira en það.“
Eitt voru þó flestir sammála um. „Við löbbum inn og [B] ræðst á móti okkur. Svo verða átök í stofunni. Þar verða átök á milli [húsráðanda] og [barnsföðurins]. Ég sé [barnsföðurinn] lemja hann með sleggju í fótinn.“ Þetta sagði einn sakborninga og þó svo fæstir vildu kannast við að hafa tekið þátt í líkamsmeiðingum virtist það einróma samþykkt að barnsfaðirinn hefði beitt sleggjunni á fætur húsráðandans.
Framburður barnsföðurins var einnig mjög skýr um þetta atriði. „Ég lamdi hann bara eins oft og ég gat með þessari sleggju, missti mig bara. Ég hitti hann ekkert það oft. Hann datt aftur fyrir sig á sófa og ég lamdi hann þar sem hann lá, í lappirnar aðallega.“
Húsráðandinn kom sjálfur fyrir dóminn í morgun. Hann mundi lítið eftir atvikum. Í lögregluskýrslu lýsti hann því að Börkur hefði lamið sig í fæturna með sleggjunni. Hann hins vegar gat ekki staðfest það fyrir dómi og sagði að það gæti hugsanlega verið stjúpbróðirinn. „Ég veit ekki hver lamdi mig með sleggjunni. Punktur.“
Seinna var sá spurður út í skilaboð sem hann sendi Annþóri á samskiptavefnum Facebook eftir árásina, en þar koma fram hótanir. „Ég ætlaði að drepa allt þetta lið. [...] Ég hef ekki náð neinum af þeim,“ sagði hann og bætti við að hann væri enn að jafna sig af meiðslunum og gæti því ekki stungið neinn.
Einn þeirra sem voru í húsinu og urðu fyrir áverkum staðfesti að barnsfaðirinn hefði komið inn með sleggjuna. Hann virtist þó ekki viss um að hann hefði notað hana sjálfur. „Ég sá ekki þegar [húsráðandinn] var laminn en [barnsfaðirinn] virtist ekki verið að höndla hana, þetta var svo stór sleggja.“
Sá hinn sami taldi víst að umrædd 50 þúsund króna skuld hefði verið tylliástæða til að koma hópnum inn í húsið. Spurður hvernig Annþór og Börkur tengjast málinu sagði hann: „Þeir hleyptu hópnum inn. [...] Ég veit ekki hver stýrði þessu, ég get ekki sagt það með fullri vissu hver stýrði þessu verkefni, en það lítur út fyrir að [Annþór] sé toppurinn.“
Eftir átökin inni í húsinu fóru flestir á brott, þ.e. sakborningar. Annþór var þó eftir á vettvangi. Húsráðandinn staðfesti að Annþór hefði boðist til að skutla honum á sjúkrahús, sem hann afþakkaði. En hann var einnig spurður að því hvort hann skuldi Annþóri enn 50 þúsund krónurnar. „Nei, ég borgaði tuttugu þúsund krónur þegar ég lá í blóði mínu.“ Síðar var hann spurður að því hvort Annþór hefði rukkað hann eftir árásina og játti hann því.
Annþór og Börkur neituðu alfarið sök hvað þennan ákærulið varðar. Sögðust ekki hafa tekið þátt í skipulagningu, ekki tekið þátt í ofbeldisverkum og raunar bara haldið sig til hlés til að byrja með en skömmu eftir að átökin hófust yfirgefið húsið. „Frá mínum bæjardyrum séð var ég nú bara að reyna að forðast að verða fyrir þessum vopnum. Þó fékk ég golfkylfu í hausinn,“ sagði Börkur um þátt sinn. „[G] reyndi svo að lemja mig með trékylfu sinni en ég náði kylfunni af honum og henti henni á gólfið. Svo forðuðum við okkur bara út, ég og Anni.“
Þegar Börkur var spurður út í lögregluskýrslu yfir húsráðandanum þar sem segir að Börkur hafi beitt sleggjunni sagði hann: „Hann er bara að ljúga því. [...] Ég get ekki svarað fyrir framburð annarra. Ég get bara sagt þér hvað gerðist.“
Að endingu er að nefna skýrslur yfir öðrum tveimur sem voru inni í húsinu og hlutu minniháttar áverka. Annar þeirra sagðist ekkert muna. Hinn sagði ekkert benda til þess að Annþór og Börkur hefðu tengst árásinni. Þeir hefðu verið þarna í vinalegri heimsókn. Raunar sagðist sá ekki hafa þekkt manninn sem var með Annþóri umrætt sinn.
Þá nefndi lögreglumaður sem kom á vettvang þegar flestir voru farnir, en Annþór var þar enn, að Annþór hefði verið mjög rólegur. Þegar hann var spurður hvort hann hefði rætt við Annþór játti hann því. „Ég spurði hann hvað gekk á. Hann sagði að þetta yrði bara útkljáð á milli þeirra, væri ekki neitt. [...] Það var mín tilfinning að hann hefði ekki átt þátt í árásinni.“