Tannlækningar hjá börnum verði niðurgreiddar að fullu

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um að veita Sjúkratryggingum Íslands heimild til samningaviðræðna við tannlækna með það að markmiði að tannlækningar fyrir börn verði niðurgreiddar að fullu. Stefnt er að því að ná þessu markmiði í áföngum og að innleiðingu á nýju kerfi verði lokið í ársbyrjun 2018.

Velferðarráðuneytið greinir frá þessu í tilkynningu.

Fram kemur, að tillögurnar séu unnar af starfshópi sem velferðarráðherra hafi skipað í sumar. Hann fól honum annars vegar að gera tillögur um tímabundnar lausnir vegna tannlækningar barna og hins vegar að vinna að tillögum um fyrirkomulag þessara mála til framtíðar. Í samræmi við tillögur hópsins var gerð breyting á gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands í júlí síðstliðnum sem leiddi til þess að hlutfall endurgreiðslu raunkostnaðar vegna tannlækninga barna hækkaði úr tæpum 42% að meðaltali í rúm 62% og var endurgreiðslan þar með orðin hærri en hún hafði verið í tæpan áratug.

Tillögur hópsins að framtíðarskipulagi þessara mála sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun eru eftirfarandi:

  •  Samið verði við tannlækna um fasta gjaldskrá fyrir öll börn.
  • Í fyrsta áfanga skal stefnt að því að greitt verði að fullu fyrir almenna tannlæknaþjónustu 12-17 ára barna og þriggja ára barna, að undanskildu komugjaldi.
  • Á hverju ári verði bætt við árgöngum þar til öll börn njóti niðurgreiðslna að fullu í samræmi við nýtt kerfi.

„Stefnt skal að því að 1. janúar 2018 verði tannlækningar allra barna að fullu niðurgreiddar, að undanskildu hóflegu komugjaldi sem greitt verði einu sinni í upphafi hverrar meðferðar.

Tillögur hópsins gera ráð fyrir að tveimur nýjum árgöngum barna verði bætt inn í nýja kerfið á hverju ári. Með því móti tekur fimm ár að innleiða kerfið þannig að öll börn njóti fullrar niðurgreiðslu.

Meðan verið er að innleiða nýja kerfið mun greiðsluþátttaka barna í þeim árgöngum sem falla utan þess verða sambærileg greiðsluþátttökunni eins og hún er núna, sem að óbreyttu felur í sér endurgreiðslur sem nema að meðaltali rúmum 62% af raunkostnaði.

Í starfshópi velferðarráðherra sátu fulltrúar velferðarráðuneytisins, Sjúkratrygginga Íslands, Tannlæknafélags Íslands, Háskóla Íslands, Embættis landlæknis og heilsugæslunnar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert