Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur kært Guðlaug Þór Þórðarson þingmann, Ágústu Johnson, eiginkonu hans, og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, til embættis sérstaks saksóknara.
Guðjón Ólafur Jónsson, lögfræðingur Gunnars, staðfesti þetta við mbl.is en kæran lýtur að brotum á lögum um mútur og umboðssvik og hlutdeild í málum tengdum Bogmanninum, félagi í eigu Guðlaugs Þórs og Ágústu. Um er ræða brot á greinum 128, 249 og 22 í l. nr. 19/1940.
Guðjón Ólafur og Gunnar fóru fram á það við ríkissaksóknara í haust að embættið aflaði gagna um viðskipti Bogmannsins ehf. og Landsbankans í júní 2003. Saksóknari hafnaði þeirri kröfu og einnig héraðsdómur og Hæstiréttur í kjölfarið.
Gunnar er ákærður fyrir brot á þagnarskyldu þegar hann hafði frumkvæði að því að gögnum um kaup Landsbankans á Bogmanninum var komið til DV.
Guðjón Ólafur sagði þegar málið var tekið fyrir dómi fyrr í mánuðinum að ekki væri nægjanlegt fyrir ákæruvaldið að leggja fram reikningsyfirlit um þessi viðskipti milli Bogmannsins og Landsbankans. Sýna yrði fram á að þessi viðskipti milli Landsbankans og Bogmannsins hefðu raunverulega átt sér stað.
Í DV í dag er fjallað um málið en samkvæmt DV fékk Bogmaðurinn 33 milljónir króna frá Landsbankanum í júní 2003 vegna sölu á umboði fyrir tryggingamiðlun svissneska tryggingarfélagsins Swiss Life.
Umboðið hafði áður verið í eigu Búnaðarbankans þar sem Guðlaugur Þór starfaði ásamt Sigurjóni. Millifærslan frá Landsbankanum var gerð hinn 13. júní 2003 en Bogmaðurinn var stofnaður tveimur dögum áður, samkvæmt frétt DV í dag.