Viðræður um nýjan meirihluta í Garði

Sveitarfélagið Garður.
Sveitarfélagið Garður. www.svgardur.is

Meirihlutinn í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs er við það að falla og viðræður um myndun nýs meirihluta í gangi. Þetta segir Kolfinna Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi, í samtali við mbl.is en hún hefur átt aðild að núverandi meirihluta ásamt fulltrúum L-lista og N-lista.

Kolfinna var kosin í bæjarstjórn fyrir D-lista sjálfstæðismanna í síðustu sveitarstjórnarkosningum og hafði listinn að loknum kosningunum hreinan meirihluta eða fjóra fulltrúa af sjö. Síðastliðið vor sprakk sá meirihluti hins vegar og myndaði hún í kjölfarið nýtt meirihlutasamstarf með fulltrúum L-lista og N-lista sem nú mun vera í uppnámi.

Bæjarráðsfundi sem halda átti í fyrramálið hefur verið frestað og segir Kolfinna að ástæða þess sé sú að viðræður standi nú yfir á milli D-listans og bæjarfulltrúa L-listans um nýtt meirihlutasamstarf. Hún er hins vegar ekki aðili að þeim viðræðum.

Davíð Ásgeirsson, bæjarfulltrúi L-listans, vildi ekkert tjá sig um málið að svo stöddu þegar mbl.is hafði samband við hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert