Tveir karlar, annar þeirra Íslendingur og kona voru nýverið handtekin í Stafangri í Noregi í tengslum við stórt fíkniefnamál sem teygir anga sína til Íslands, Noregs og Danmerkur. Ellefu hafa verið handteknir vegna þessa máls, þar af sjö Íslendingar, þrír Danir og einn Frakki. Er fólkið grunað um að hafa smyglað 33 kílóum af amfetamíni.
Þetta kemur fram í frétt Roglandsavis.
Þar kemur fram að Íslendingurinn sem nú hefur verið handtekinn sé á fertugsaldri og búsettur í Stafangri. Einnig hafi sambýliskona hans á svipuðum aldri verið handtekin sem og 41 árs gamall Norðmaður.
Konunni hefur verið sleppt úr haldi en karlarnir eru báðir enn í haldi lögreglu.
Í ágúst lagði danska lögreglan hald á 12 kíló af amfetamíni í tengslum við málið. Efnin höfðu verið flutt inn frá Hollandi. Í kjölfarið var 54 ára Frakki handtekinn.
13. september stöðvaði lögreglan svo bíl á landamærunum og í honum fundust 22 kíló af amfetamíni og tvö burðardýr voru handtekin á staðnum.
Rannsókn málsins hófst í maí og tóku lögregluyfirvöld í Íslandi, í Noregi og Kaupmannahöfn þátt í henni. Grunur lék á að hópur Íslendinga stæði að innflutningi fíkniefna til Norðurlanda.