Reykjavíkurborg kaupi Perluna

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að borgin gangi til samninga við Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á Perlunni í Öskjuhlíð.  Þá mun borgin ganga til samninga við ríkið um að það leigi húsið í allt að 15 ár og  komi þar upp náttúruminjasýningu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá borginni.

 Ef samningar takast við OR um kaupin og ríkir leigir húsið fyrir náttúruminjasýningu mun Reykjavíkurborg gera breytingar á Perlunni fyrir allt að 100 milljónir króna svo hægt verði að koma þar upp glæsilegri sýningu um náttúru Íslands.

 Stefnt er að því að byggja milligólf í hluta Perlunnar og opnað verður betur inn í hitaveitutankinn þar sem Sögusýningin var til húsa áður.

 Í greinargerð með tillögunni kemur fram að með kaupunum verði almenningi áfram tryggður aðgangur að Perlunni og umhverfi hennar, þó með þeim takmörkunum að selt verður inn á náttúruminjasýninguna. Með kaupunum gefst Reykjavíkurborg einstakt tækifæri til þess að stjórna uppbyggingu og nýtingu svæðisins í Öskjuhlíð sem Perlan stendur á. Nú er í gangi skipulagssamkeppni um Öskjuhlíðina á vegum skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Heimild borgarráðs er bundin við það að viðunandi leigusamningur um sýningu Náttúruminjasafns Íslands náist við ríkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert