Tengist danska amfetamínsmyglinu

Amfetamín sem danska lögreglan fann við leit í bifreið Íslendinganna.
Amfetamín sem danska lögreglan fann við leit í bifreið Íslendinganna.

Handtaka íslensks karlmanns og tveggja Norðmanna í Stafangri í Noregi fyrir nokkru er hluti af rannsókn á umfangsmiklu fíkniefnamáli hér á landi, í Danmörku og Noregi. Sjö Íslendingar hafa verið í gæsluvarðhaldi í Danmörku vegna málsins síðan í lok september.

Þetta staðfesti Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is. „Handtakan í Noregi er angi af þessu sama, málið rannsakað í þremur löndum,“ sagði  Karl Steinar, sem sagðist að öðru leyti ekki geta tjáð sig um málið.

Íslendingarnir sjö, sem sitja í gæsluvarðhaldi í Danmörku  munu næst koma fyrir dómara hinn 6. desember. Lögregla hyggst fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þeim. 

Þetta sagði Steffen Thaaning Steffensen, sem starfar hjá deild skipulagðra glæpa hjá dönsku lögreglunni í samtali við mbl.is. „Rannsókn málsins gengur ágætlega og við viljum að þeir verði allir sjö áfram í haldi,“ segir Steffensen.  „En það er dómarans að ákveða.“

Ásamt Íslendingunum sjö voru þrír Danir og einn Frakki handteknir. Talið er að höfuðpaurinn sé 38 ára íslenskur karlmaður, búsettur á Spáni. Reynt var að smygla amfetamínu til Danmerkur í tveimur skömmtum, 12 kílóum í fyrra skiptið og 22 nokkru síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert