Dæmdur í 22 ára fangelsi

Lögreglan í Brasilíu handtók tvo karlmenn vegna smygls á e-töflum. …
Lögreglan í Brasilíu handtók tvo karlmenn vegna smygls á e-töflum. Sverrir Þór Gunnarsson var annar þeirra handteknu. mbl.is

Sverrir Þór Gunnarsson hefur verið dæmdur í 22 ára fangelsi fyrir umfangsmikið fíkniefnasmygl í Brasilíu. Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins staðfestir í samtali við mbl.is að ráðuneytið hafi fengið upplýsingar um dóminn yfir Sverri en að hann hafi þó enn ekki formlega verið birtur.

DV sagði fyrst frá málinu í morgun.

Sverrir Þór var dæmdur fyrir innflutning á 46.000 e-töflum til Brasilíu. Töflurnar fundust í farangri 26 ára gamallar brasilískrar konu, sem kom til landsins frá Lissabon í Portúgal. Hún var stöðvuð á Tom Jobim flugvellinum í Rio de Janeiro sl. sumar. Þetta er mesta magn e-taflna sem yfirvöld hafa lagt hald á á umræddum flugvelli.

Við yfirheyrslu á konunni kom fram að hún hafi ætlað að hitta kærasta sinn, sem er Brasilíumaður, og Sverri Þór á kaffihúsi í Ipanema. Lögregla fór á staðinn og handtók Sverri Þór og Brasilíumanninn.

Við húsleit í íbúð Brasilíumannsins fannst reiðufé, maríjúana og LSD. Þá var framkvæmd leit á hótelherbergi, sem Sverrir Þór dvaldi á, og þar fannst hass. Lögreglan segir að Sverrir Þór hafi komið til Brasilíu með sama flugi og konan, þ.e. frá Lissabon. Honum tókst hins vegar að komast í gegnum eftirlitið með hassið.

Við handtökuna reyndi Sverrir Þór að villa á sér heimildir með því að þykjast vera annar íslenskur maður.

Sverrir Þór Gunnarsson er fæddur árið 1972 og á langan og afbrotaferil að baki. Hann var ekki nema 16 ára gamall þegar hann var fyrst færður fyrir dómara. Næstu árin á eftir kom hann ítrekað til kasta yfirvalda vegna umferðar- og fíkniefnabrota. Upp úr tvítugu virðast afbrot Sverris Þórs hafa orðið skipulagðari en frá árinu 1991 til ársins 1995 hlaut hann fjóra refsidóma fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnabrot. Hann komst ungur til metorða í undirheimum Reykjavíkur þar sem hann er þekktur undir viðurnefninu Sveddi tönn.

Fékk 7 ára dóm í stóra fíkniefnamálinu

Sverrir Þór er þó þekktastur sem einn af höfuðpaurunum í stóra fíkniefnamálinu svokallaða í kringum aldamótin. Málið fékk mikla athygli í fjölmiðlum á sínum tíma enda vakti það óhug almennings hve skipulögð og umfangsmikil brotin voru. Í febrúar árið 2001 dæmdi Hæstiréttur Sverri Þór í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir aðild hans að stóra fíkniefnamálinu  auk þess að gera upptækar hjá honum 21,4 milljónir króna. Málið var einsdæmi á sínum tíma og snérist um stórfelldan innflutning á fíkniefnum og skipulagt peningaþvætti. Sakborningar í málinu voru 19 talsins en Sverrir Þór og Ólafur Ágúst Ægisson, sem var dæmdur til 9 ára fangelsisvistar, fengu þyngstu dómana. Aldrei áður höfðu svo þungir dómar fallið í fíkniefnamáli hér á landi.

Í umfjöllun Héraðsdóms Reykjavíkur um þátt Sverris í stóra fíkniefnamálinu segir að brot hans hafi verið þaulskipulögð. Þau hafi varðað innflutning og kaup og sölu mikils magns fíkniefna af flestum gerðum þar á meðal fíkniefna með mikla hættueiginleika svo sem e-töflur.

Málið var gríðarlega umfangsmikið og bæði fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra fengu auka fjárveitingu frá dómsmálaráðuneytinu vegna rannsóknar málsins.

Umfangsmikið peningaþvætti

Í kjölfar lögreglurannsóknar á stóra fíkniefnamálinu var í fyrsta skiptið ákært og sakfellt fyrir peningaþvætti á Íslandi. Í sérstöku dómsmáli sem fjallaði aðeins um þá hlið málsins er snéri að peningaþvætti voru tveir menn sakfelldir árið 2001 af fjölskipuðum héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa tekið við fjármunum og lausamunum sem þeir vissu að voru ávinningur fíkniefnaviðskipta Sverris Þórs. Hæstiréttur staðfesti dóminn sama ár.

Peningunum hafði að mestu leyti verið ætlað að koma sem greiðsla fyrir hlut Sverris Þórs í kjötvinnslufyrirtækinu Rimax ehf. sem hinir dæmdu menn áttu og ráku.

Í dómnum var með ótvíræðum hætti dæmt refsivert að veita brotastarfsemi liðveislu til dæmis með því að flytja ávinning af henni eða geyma peninga.

Grunaður um að tengjast smygli til Íslands undanfarin ár

Eftir að hafa afplánað dóminn í stóra fíkniefnamálinu flutti Sverrir Þór af landi brott og er sagður hafa haldið sig bæði á Spáni og í Brasilíu þar sem hann var lengi búsettur. Einnig hefur spurst til hans í Amsterdam í Hollandi. Þrátt fyrir það hefur hann verið tengdur við glæpastarfsemi á Íslandi undanfarin ár. Íslensk lögregluyfirvöld hafa lengi grunað Sverri Þór um að standa að baki smygli til Íslands.

Til dæmis kom fram í dómsmáli árið 2010, sem snérist um fíkniefnainnflutning til Íslands, að Sverrir Þór hefði líklega afhent burðardýrum kókaín í Alicante á Spáni og þegið greiðslu fyrir. Hann var þó hvorki ákærður né kallaður til sem vitni í því máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert