„Næsta ár verður viðspyrna. Þá verður í fyrsta skipti síðan árið 2007 ekki gerð niðurskurðarkrafa á Landspítala,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. Á næsta ári skapist svigrúm til að fjölga rúmum eitthvað og fyrirheit hafi verið gefið um viðbótarframlag í bráðaendurnýjun tækja.
Björn bendir á að ekki megi gleyma því að framlag til sjúkrahússins árið 2012 sé 23% lægra en árið 2007. Hann segir ennfremur að nýta verði árangur spítalans í rekstri síðustu ára til að kalla fram leiðréttingu á kjörum starfsmanna spítalans. Þetta kemur fram í pistli sem hann skrifar á heimasíðu LSH.
„Fyrir utan að ekki verður gerð hagræðingarkrafa á næsta ári eru fyrirheit um 600 milljónir til viðbótar í bráðaendurnýjun tækja. Það er ljóst að eitt af verkefnum næstu mánaða verður að reyna áfram að fjölga rúmum á spítalanum. Verið er að vinna fjárhagsáætlun Landspítala fyrir næsta ár og við sjáum að það er örlítið svigrúm til þess að fjölga rúmum. Vonandi verður hægt að kynna útfærslu á því betur fljótlega.
Það er ljóst að við verðum saman að nýta árangur spítalans í rekstri síðustu ára til að kalla fram leiðréttingu á kjörum starfsmanna spítalans. Við verðum að vinna saman að því að heilbrigðisþjónusta verði viðurkennd sem þjónusta sem skilar verðmætum og fá þannig viðurkenningu á starfi allra heilbrigðisstétta og annarra sem vinna á Landspítalanum,“ skrifar forstjórinn.
Hann bendir jafnframt á að mikið hafi verið um svokallaðar gangainnlagnir að undanförnu vegna þess að spítalinn hafi ekki nógu mörg rúm fyrir alla sjúklinga.
„Ein af ástæðunum fyrir þessu er sú að töluvert margir af sjúklingum okkar, eða rúmlega 50, eru einstaklingar sem hafa fengið gilt vistunarmat og eru að bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili. Það hafa ekki verið svona margir fastir á spítalanum síðan árið 2008. Við erum núna að reyna með þeim möguleikum sem við höfum að opna fleiri rúm. Þótt þau séu ekki mörg hefur það þó tekist að nokkru leyti og rúmum hefur fjölgað lítillega á síðustu vikum á lyflækningasviði en þó ekki nægilega,“ segir Björn Zoëga.