Rekstrarstjóri Herjólfs í Vestmannaeyjum segir að óhapp hafi orðið í Landeyjahöfn en að skipið sé nú á leið til Eyja samkvæmt áætlun. Greint er frá þessu á vef Eyjafrétta.
Þar segir að farþegar Herjólfs hafi undanfarið haft samband við ritstjórn Eyjafrétta því þeir telji Herjólfur hafi farið utan í annan af tveimur hafnargörðum Landeyjahafnar.
Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs í Vestmannaeyjum, staðfestir í samtali við Eyjafréttir að eitthvert óhapp hefði orðið í Landeyjahöfn en skipið sé nú á leið til Eyja samkvæmt áætlun.
Hann segir ennfremur að kafari verði sendur niður til að meta skemmdir, ef einhverjar séu.