Íbúðalánasjóður fær 13 milljarða

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður mbl.is/Golli

Ríkisstjórnin ákvað á fundi í morgun af afla heimilda í fjárlögum næsta árs til að auka stofnfé Íbúðalánasjóðs um allt að 13 milljarða króna til að styrkja eiginfjárhlutfall hans.

Málefni Íbúðalánasjóðs voru rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun og í tilkynningu sem ríkisstjórn Íslands hefur sent frá sér kemur fram að innheimtuferlar verða endurskoðaðir, áhættustýring styrkt og fullnustueignir sjóðsins færðar í sérstakt félag í eigu ríkisins sem annist umsýslu þeirra.

„Ríkisstjórnin hefur fjallað ítarlega um stöðu Íbúðalánasjóðs, veika eiginfjárstöðu hans og erfiðan rekstur sem rekja má til útlánatapa í kjölfar efnahagshrunsins, ófullnægjandi vaxtamunar sjóðsins og áhættu af uppgreiðslum.

Miðað við áætlanir stefnir í að eigið fé sjóðsins verði uppurið í lok þessa árs. Staðan er í meginatriðum samhljóma mati stjórnenda Íbúðalánasjóðs en þeir hafa kortlagt og metið umfang áhættuþátta og viðbrögð við þeim. Framangreindir áhættuþættir hafa ítrekað verið til umræðu í stjórn Íbúðalánasjóðs á þessu ári og kynntir fyrir viðeigandi stjórnvöldum. Til þess að bregðast við aðsteðjandi vanda hefur Íbúðalánasjóður þegar komið af stað verkefnum á tilteknum sviðum og önnur eru í farvatninu,“ segir í tilkynningu.

Innspýting þýðir að eiginfjárhlutfallið fer í 3%

Ríkisstjórnin mun afla heimildar í fjárlögum 2013 til að auka stofnfé Íbúðalánasjóðs um allt að 13 milljarða króna þannig að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði ekki lægra en 3% miðað við ársbyrjun 2013. Í október var upplýst um að eiginfjárhlutfall sjóðsins væri komið niður í 1,4%.

„Það er þó engu síður áfram stefna stjórnvalda að eigið fé sjóðsins verði 5% líkt og kveðið er á um í reglugerð um sjóðinn. Nánari ákvörðun um fjárhæð framlagsins verður tekin um leið og uppgjör ársins 2012 liggur fyrir sem og áfangaskýrsla starfshóps velferðarráðherra.

Innheimtuferlar sjóðsins verða teknir til endurskoðunar og skuldarar hvattir til að nýta sér almenn skuldaúrræði til að koma lánum í skil. Þannig verði brugðist við fyrirsjáanlegri og vaxandi afskriftaþörf en þess jafnframt gætt að eðlilegt tillit sé tekið til stöðu þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum.

Fullnustueignir Íbúðalánasjóðs verða færðar í sérstakt félag í eigu ríkisins sem fari með umsýslu eignanna, komi í veg fyrir virðisrýrnun þeirra og komi þeim í verð eftir því sem aðstæður leyfa. Þannig getur sjóðurinn einbeitt sér að því að sinna útlána- og fjármálastarfsemi í samræmi við hlutverk sjóðsins lögum samkvæmt. Jafnframt verður hluti eignanna fluttur í sérstakt félag sem annist rekstur leiguíbúða.

Áhættustýring Íbúðalánasjóðs verður styrkt og meðal annars settar fram tillögur um hvernig loka megi hluta af þeirri uppgreiðsluáhættu sem sjóðurinn stendur frammi fyrir,“ segir í tilkynningu.

Sérstakur starfshópur skipaður

Velferðarráðherra mun skipa sérstakan starfshóp, með aðild forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs, til þess að fara yfir framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk sjóðsins sem leiði til þess að rekstur sjóðsins standi undir sér.

Starfshópurinn fylgist jafnframt með framgangi framangreindra aðgerða og skili áfangaskýrslu fyrir lok febrúar 2013.

Veiting óverðtryggðra lána sett í bið

Af hálfu Íbúðalánasjóðs hefur verið til skoðunar að veita óverðtryggð lán sem verði fjármögnuð með útgáfu nýs, óverðtryggðs uppgreiðanlegs skuldabréfaflokks. Ákvarðanir um veitingu óverðtryggðra lána verði teknar þegar staða sjóðsins hefur verið treyst með framangreindum aðgerðum.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka kemur fram að greiningardeildir telur að  til þess að ná eiginfjárhlutfallinu upp í 5% þurfi á endanum mun hærri fjárhæð en framangreinda 13 milljarða króna enda er útlit fyrir rekstur sjóðsins og þróun efnahags hans ekki beysið næsta kastið.

Dökk mynd en um leið raunsæisleg

Með fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar fylgdu skilabréf starfshóps um málefni ÍLS sem og skýrsla IFS greiningar um stöðu sjóðsins. Er þar dregin upp býsna dökk mynd af rekstrarhorfum, þróun útlánasafns og áhættuþáttum í rekstri sjóðsins.

Að okkar mati er sú mynd sem þar er dregin upp raunsæisleg, og full ástæða til að bregðast við henni af fullri alvöru. Þær aðgerðir sem tilkynntar voru í morgun eru því aðeins fyrsta skrefið í að koma traustari fótum undir rekstur Íbúðalánasjóðs til lengri tíma litið,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert