Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra ætlar að leggja til að virðisaukaskattur á gististaði verði hækkaður í 14% en ekki 25,5% eins og áður hafði verið stefnt að. „Við skulum segja að þetta sé ákveðin lending. Það hafa allir fylgst með þessari umræðu undanfarnar vikur og mánuði. Mín niðurstaða er að þetta sé ágætis lending, að fara aftur til ársins 2007 þegar skatturinn var 14%, þess vegna legg ég það til við þingið að við tökum það þrep upp aftur,“ sagði Katrín Júlíusdóttir eftir ríkisstjórnarfund í morgun.
Þá leggur Katrín til að afsláttur bílaleiga á vörugjöldum verði ekki afnuminn að fullu. Skrefið verði aðeins stigið til hálfs miðað við fyrri áætlanir. „Ég legg til að við göngum hálfa leið í því efni. Það var gert ráð fyrir því að gera það í tveimur áföngum, árin 2013 og 2014. Það sem ég legg til er að við lögfestum eingöngu fyrri hlutann,“ segir Katrín.
Einnig segir Katrín að gert sé ráð fyrir að arðgreiðslur úr fyrirtækjum og bönkum í eigu ríkisins hækki um tæpa 13 milljarða frá því sem áður var gert ráð fyrir.