„Í fyrstu fjárhagsáætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Lista Kópavogsbúa kristallast pólitískar áherslur þeirra. Álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði er lækkuð lítillega þannig að fasteignagjöld í besta falli standa í stað milli ára en í flestum tilfellum hækka,“ segir í tilkynningu frá bæjarfulltrúum Samfylkingar og Vinstri grænna í Kópavogi, þeim Guðríði Arnardóttur, Hafsteini Karlssyni, Margréti Júlíu Rafnsdóttur og Arnþóri Sigurðssyni.
Þar segir einnig: „Barnafjölskyldur mega hins vegar þola verulegar gjaldahækkanir bæði í grunn- og leikskólum bæjarins. Kostnaðurinn við skattalækkunina er sóttur í vasa barnafólks og með frekari niðurskurði í grunnskólunum. Talkennsla og sérkennsla er skorin niður í grunnskólum bæjarins en um leið er framlag til einkaskóla hækkað um 62% eða 33 milljónir. Ennfremur er niðurskurður fyrirhugaður á tónlistarnámi í bænum. Kostnaður við yfirstjórn bæjarins hækkar verulega umfram aðra gjaldaliði.
Sérstök gæluverkefni meirihlutans eru sett í forgang s.s. bygging stærstu reiðhallar á Íslandi, glæsibygging Skógræktarfélagsins í Guðmundarlundi, jólaskreytingar og árshátíð fyrir starfsfólk bæjarins. Bæjarfulltrúar meirihlutans telja þau verkefni mikilvægari en koma til móts við þá bæjarbúa sem höllustum fæti standa.
Fjárhagsáætlun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Lista Kópavogsbúa undirstrikar þá pólitík sem þessir flokkar standa fyrir. Skattalækkunin kemur þeim til góða sem mest hafa á milli handanna en barnafjölskyldurnar látnar borga brúsann.
Fulltrúar Samfylkingar og VG mótmæla þessum áherslum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og lista Kópavogsbúa. Forgangsröðunin er kolröng. Þegar birtir yfir bæjarsjóði á fyrst að nýta það svigrúm til að koma til móts við þá sem minnst hafa á milli handanna og styrkja grunnþjónustu við bæjarbúa.“