Forsvarsmenn Norðuráls gera mjög alvarlegar athugasemdir við áform ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpinu um framlengingu sérstaks raforkuskatts.
Þetta kemur fram í umsögn sem Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls, hefur sent til fjárlaganefndar, efnahags- og viðskiptanefndar og atvinnuveganefndar Alþingis og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.
Skatturinn var lagður á tímabundið 2010 en átti að falla úr gildi í lok þessa árs en nú er gert ráð fyrir framlengingu skattsins. ,,Verði áformin að veruleika er gengið þvert á skýrar samningsskuldbindingar ríkisstjórnar Íslands við Norðurál og fleiri stórnotendur raforku,“ segir í bréfinu, þar sem farið er ítarlega yfir málið og vísað m.a. til samkomulags og sameiginlegrar yfirlýsingar fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis og Samtaka atvinnulífsins og stórnotenda á raforku frá 7. desember 2009. Í lok umsagnarinnar segir að það sé óviðunandi „ef ríkisstjórn Íslands mun ganga á bak orða sinna með þessum hætti“.