Ísland verði miðpunktur umræðu um bráðnun jökla

Svínafellsjökull hopar um marga metra á ári líkt og fleiri …
Svínafellsjökull hopar um marga metra á ári líkt og fleiri íslenskir jöklar. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Alþjóðlegur samráðsvettvangur um jökla og ís verður settur á fót í Reykjavík og Ísland um leið styrkt sem ráðstefnuland. Ráðstefnuborgin Reykjavík hefur gengið til liðs við félagið Vox Naturae um þróun og uppbyggingu hins alþjóðlega verkefnis, sem nefnist „The Ice Circle“.

Í fréttatilkynningu frá Ráðstefnuborginni Reykjavík og Vox Naturae er „The Ice Circle“ lýst sem varanlegum vettvangi fyrir alþjóðlegar ráðstefnur og fundi um aðgerðir vegna áhrifa þess að jöklar, ís og snjór taka örum breytingum um allan heim vegna hlýnandi loftslags. Samstarfssamningur um að setja upp alþjóðlegan samráðsvettvang í Reykjavík var undirritaður í dag.

„Með því að gerast samstarfsaðili Vox Naturae vill Ráðstefnuborgin Reykjavík stuðla að því að Ísland verði miðpunktur alþjóðlegrar, pólitískrar og akademískrar umræðu er varðar jökla, ís og snjó og þar með miðpunktur fyrir ráðstefnur er að því lúta. Að sama skapi opnast verðmætt tengslanet í gegnum slíkan samstarfsvettvang og þá aðla sem Vox Naturae kemur með að borðinu sem styður við áframhaldandi uppbyggingu funda og ráðstefnumarkaða á Íslandi,“ segir í fréttatilkynningu.

70% ferskvatns í formi íss

Þar segir jafnframt að málið hafi mikið vægi í alþjóðlegu samhengi. Örar breytingar á jöklum og ís snerti grundvallarhagsmuni milljarða manna í öllum heimsálfum. Jöklar og snjór séu forðabúr vatns fyrir stóran hluta mannkyns, en yfir 70% af öllu ferskvatni jarðar sé bundið í ís. Sum lífríki jarðar, menningarheimar og atvinnugreinar eins og ferðamennska byggist alfarið á ís og snjó. Því sé ljóst að mikil umræða muni eiga sér stað á næstu árum og það sé einbeittur vilji Rástefnuborgarinnar Reykjavíkur og Vox Naturae að miðpunktur þeirrar umræðu verði á Íslandi. 

Með því að setja „The Ice Circle“ á fót á Íslandi sé mikilvægt skref tekið til að gera Reykjavík að einni af eftirsóttustu borgum Evrópu fyrir ráðtefnur og viðburði í framtíðinni. 

Að verkefninu kemur fjöldi alþjóðlegra stofnana eins og Alþjóðabankinn, Global Water Partnership, UNESCO Centre on Water Law, Policy and Science auk íslenskra aðila eins og Veðurstofunnar og Landgræðslunnar. Þá koma vísindamenn að verkefninu, s.s. Helgi Björnsson jöklafræðingur.

Páll Ásgeir Davíðsson framkvæmdastjóri Vox Naturae og Þorsteinn Örn Guðmundsson …
Páll Ásgeir Davíðsson framkvæmdastjóri Vox Naturae og Þorsteinn Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík við undirritunina í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert