„Báðir hafa orðið sér til minnkunar“

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli

Þingmennirnir Lúðvík Geirsson og Björn Valur Gíslason gengu til skiptis fram fyrir ræðustól Alþingis með spjald sem á stóð „MÁLÞÓF“ og vísuðu spjaldinu í átt að sjónvarpsmyndavél sem í húsinu er meðan á ræðu Illuga Gunnarssonar stóð í kvöld.

Illugi ræddi þar fjárlög 2013 og eftir að þeir höfðu lokið sér af spurði hann sitjandi forseta, Árna Þór Sigurðsson, hvort hann ætlaði að láta framkomu þingmannanna líðast.

Árni Þór tók þá til máls og sagðist ekki vita hvað hefði gerst.

Átti von á framkomunni frá öðrum en ekki báðum

„Ég átti von á þessari framkomu frá öðrum þessara þingmanna sem hér gengu fram fyrir pontuna, en ég átti ekki von á henni frá þeim báðum. Báðir hafa orðið sér til minnkunar,“ sagði Illugi þá og hélt ræðu sinni áfram.

Hann sagði svo: „Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að það fari fram vitræn umræða um fjárlög við þá háttvirta þingmenn. Þroski þeirra og vit kom þar fram.

En ég veit að í stjórnarliðinu er alvarlega þenkjandi fólk. Einstaklingar sem bæði hafa vit á efnahagsmálum og sannfæringu fyrir því sem við erum að gera hér á þingi og skiptir máli. Það skiptir engu máli þótt framkoma háttvirtra þingmanna, þótt hún hafi farið fram hjá forseta, hafi verið eins og hún var.“

Telur atvikið ekki hafa verið við hæfi

Að lokinni ræðu Illuga Gunnarssonar tók Árni Þór Sigurðsson varaforseti til máls og sagðist hafa kynnt sér það sem hefði átt sér stað og sagði svo: „Ég tel það atvik ekki við hæfi. Í þessum sal tjá menn sjónarmið sín og viðhorf í ræðustól.“

Umræður staðið yfir um fjárlög í allan dag

2. umræða um fjárlög 2013 hefur staðið á Alþingi síðan í morgun og nú eru þingmennirnir Unnur Brá Konráðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Pétur H. Blöndal, Gunnar Bragi Sveinsson, Ásbjörn Óttarsson, Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal á mælendaskrá.

Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson mbl.is
Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna.
Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson
Lúðvík Geirsson, alþingismaður og fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Lúðvík Geirsson, alþingismaður og fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka