Ríkisstjórnin áformar að afla samtals 8,4 milljarða króna með sérstakri tekjuöflun á næsta ári. Þetta má lesa úr bandorminum að þessu sinni, breytingum á lögum sem varða tekjuhlið fjárlaga.
Meðal breytinga er að afsláttur af vörugjöldum á bílaleigubíla er skorinn niður. Kolefnisgjald og gjald á sölu á heitu vatni verður varanlegt en raforkuskattur er framlengdur um þrjú ár, ásamt því sem hann hækkar í takt við verðlagsþróun. Þá er lagt til að bensíngjöld hækki um 4,6%, útvarpsgjald úr 18.800 í 19.700 krónur og áfengisgjald um 4,6%.
Á útgjaldahliðinni á framlenging á sérstakri 30% hækkun vaxtabóta um eitt ár, til ársloka 2013, að kosta ríkissjóð tvo milljarða króna. Einnig verða barnabætur hækkaðar um 2,5 milljarða króna og er áætlað að barnabætur til úthlutunar verði samtals 10.762 milljónir króna á næsta ári.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, enga innistæðu fyrir auknum útgjöldum ríkissjóðs án aðhalds á móti, þau séu „gjafir án innistæðu“. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gagnrýnir hækkun tryggingagjalds. Hún þrengi að svigrúmi fyrirtækja til að hækka laun 1. febrúar nk.