Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lokið fundi sínum í kvöld án þess að ljúka umfjöllun um kvótafrumvarpið svokallaða. Það verður því ekki lagt fram í kvöld, á síðasta degi sem hægt er að leggja frumvörp fram til þinglegrar meðferðar sem eigi að fá afgreiðslu fyrir jól. Það þarf því að leita afbrigða eigi frumvarpið að koma til þingsins og afgreiðast fyrir jólahlé.
Samkvæmt heimildum mbl.is mun þingflokkur Samfylkingarinnar funda að nýju á mánudag þar sem málið verður rætt og á þann fund verður kallaður Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, til að ræða frumvarpið í núverandi mynd við þingflokkinn.
Eins og mbl.is hefur áður greint frá er ekki full samstaða um málið í þingflokknum og hefur m.a. Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður, lýst því yfir að hún styðji málið ekki í núverandi mynd. Þingflokkur VG hefur þó samþykkt að málið fari til þingsins til meðferðar og ríkisstjórnin afgreiddi það á fundi sínum í morgun.
Innan þingflokks VG er þó ekki full sátt um málið og hefur mbl.is heimildir fyrir því að með þeirri samþykkt að það fengi að fara til þinglegrar meðferðar hafi verið settir fyrirvarar einstakra þingmanna.
Ekki liggur fyrir hvort reynt verði að afgreiða málið fyrir jól, né heldur hvort fyrir liggi breytingatillögur við frumvarpið af hálfu þingflokks Samfylkingarinnar þar sem illa hefur gengið að ná í þingmenn flokksins eftir að þingflokksfundi lauk í kvöld.