„Þarf ekkert að kenna mér“

Lúðvík Geirsson gengur fram hjá ræðustól Alþingis með blað sem …
Lúðvík Geirsson gengur fram hjá ræðustól Alþingis með blað sem á stendur MÁLÞÓF.

„Mér er svo sannarlega annt um virðingu Alþingis og mér er annt um að það standist það samkomulag sem var gert um umræður þingsins,“ sagði Lúðvík Geirsson á Alþingi í kvöld þegar hann svaraði fyrir gagnrýni á sig eftir að þeir Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar Alþingis, gengu til skiptis fram fyrir ræðustól Alþingis með spjald sem á var skrifað „MÁLÞÓF“ eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld.

Þingmenn komu nokkrir í ræðustólinn og lýstu yfir vanþóknun sinni á framferði þingmannanna.

Lúðvík sagði samkomulag hafa verið gert í fjárlaganefnd þingsins um lengd 2. umræðu um fjárlögin. Þetta samkomulag hefði verði tilkynnt á fundi formanna þingflokka með þingforseta en við það hefði ekki verið staðið. Hann mótmælti því að ekki hefði verið staðið við samkomulagið.

Ætti að vera ljóst að þingnefndir ákveða ekki dagskrána

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sté í þingpontu og sagði að þótt Lúðvík hafi verið stuttan tíma á Alþingi ætti „honum samt að vera ljóst að einstaka þingnefndir gera ekki samkomulag um það hvernig haldið er á málum. Það er gert á fundi formanna þingflokka með forseta. Ekkert samkomulag lá fyrir um hvenær þessari umræðu yrði lokið eða hvenær yrði gengið til atkvæða.

Ég ætla að spara mér það að lýsa skoðun minni frekar á háttsemi háttvirts þingmanns. En þetta minnir mig á þegar ég var í menntaskóla í málfundastarfi. Þá man ég eftir svona brellum og framkomu“, sagði Illugi.

Framkoman jafnömurleg jafnt sem áður

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tók til máls og tók undir með Illuga Gunnarssyni um að það væru þingflokksformenn með forseta sem gerðu samkomulag um dagskrána. Hann gagnrýndi Lúðvík nokkuð og ræddi meðal annars stuttan tíma hans á Alþingi og gerði lítið úr háttvísi þingmannsins. Svo sagði Gunnar Bragi: „Framkoma þingmannsins er jafnömurleg jafnt sem áður en hann verður að eiga það við sjálfan sig. Þingmenn stjórnarflokkanna bera enga virðingu fyrir Alþingi og störfum þess.“

Þingmenn geta beðið um orðið og gert athugasemdir

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók til máls og minnti á að þingmenn gætu beðið um orðið í þingsal og rætt mál ef þeir teldu ekki staðið við samkomulag sem það sem Lúðvík vísaði í.

Sagði háttvísi að standa við gefin loforð

Lúðvík Geirsson tók því næst til máls og sagðist hafa meiri reynslu úr stjórnmálum en Gunnar Bragi Sveinsson og sagði meðal annars: „Háttvirtur þingmaður þarf ekkert að kenna mér hvað er háttvísi í stjórnmálum. Það er háttvísi að standa við gefin loforð.“

Hann sagði dapurt að horfa upp á að menn væru ekki tilbúnir að standa við gefin loforð.

Segir nú hlaupist á brott frá fyrirkomulaginu

Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður VG, tók til máls og ræddi málið. Hún sagði að fjárlagaumræðan í vetur væri undanþága frá því sem Illugi hefði nefnt að samkomulag um dagskrá færi fram með þingflokksformönnum og þingforseta. Hún sagði að við fyrstu umræðu hefði fjárlaganefnd gert tillögur um hvernig sú umræða færi fram og að farið hefði verið eftir þeim. Hún sagði menn nú hlaupast á brott frá því fyrirkomulagi og að það væri miður.

„Meira hef ég nú ekki við þennan háttvirta þingmann að ræða“

Illugi Gunnarsson tók til máls að nýju og ræddi orð Lúðvíks Geirssonar. Hann sagði: „Þetta er hálfdapurlegur endir á hans ferli hér í þinginu. Ég hafði talsverðar væntingar til þingmannsins um hvernig hann myndi standa hér að málum en svo bregðast krosstré sem önnur tré og sennilega verður þingmaðurinn að búa við það að það verði nokkuð lagt út á og lagt mat á framgöngu hans hér í þinginu í kjölfar þessa dæmalausa atviks hér. Meira hef ég nú ekki við þennan háttvirta þingmann að ræða.“

Sagði þingmennina lítilsvirða þingið

Eftir nokkrar umræður enn tók formaður fjárlaganefndar Alþingis, Björn Valur Gíslason, til máls og gagnrýndi umræðuna og vísaði til samkomulags í fjárlaganefnd. Hann sagðist ósáttur við framgöngu þingmannanna og sagði þá lítilsvirða þingið með háttsemi sinni í kvöld.

„Báðir hafa orðið sér til minnkunar“

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax
Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson mbl.is/Ómar Óskarsson
Unnur Brá Konráðsdóttir
Unnur Brá Konráðsdóttir
Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka