Björt framtíð með 8,1%

Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson. mbl.is

Björt framtíð mælist með yfir 8% fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Framboðið er eina nýja stjórnmálaaflið sem nær manni á þing samkvæmt könnuninni. Greint var frá þessu í hádegisfréttum RÚV og á vef RÚV.

Sjálfstæðiflokkurinn mælist með 35,9 prósenta fylgi. Fylgi ríkisstjórnarinnar breytist lítið á milli mánaða og mælist nú nálægt 35 prósentum. Fylgi Samfylkingarinnar eykst örlítið milli mánaða og mælist 22,5 prósent. Fylgi Vinstri grænna mælist 10,6 prósent en VG hefur aðeins einu sinni mælst með minna fylgi á þessu kjörtímabili. Það var í maí þegar flokkurinn mældist með 10,4 prósent. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 12,7 prósent sem er svipað því sem flokkurinn hefur mælst með í síðustu könnunum.

Björt framtíð mælist nú með 8,1 prósents fylgi og hefur bætt nokkru við sig frá fyrri könnunum. Í september mældist flokkurinn með undir fimm prósenta fylgi. Fylgi hinna nýju stjórnmálaaflanna breytist lítið á milli mánaða. Dögun mælist með 3,8 prósent, Hægri grænir með 3,3 prósent og Samstaða með 1,9 prósent.

Könnunin var gerð 1.-29. nóvember. 5.759 voru í úrtakinu og var svarhlutfallið 60 prósent. 73,1 prósent tók afstöðu til flokka. Rúm 12 prósent ætla ekki að kjósa eða ætla að skila auðu en tæp 15 prósent gáfu ekki upp afstöðu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert