Jólageitin við Ikea í Kauptúni í Garðabæ fékk ekki að standa lengi þetta árið en kveikt var í geitinni um þrjúleytið í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er geitin gjörónýt.
Geitin, sem var sex metra há, á ættir að rekja til Svíþjóðar og skipar þar veigamikinn sess í jólahaldinu. Var geitin sett upp í lok október þannig að hún fékk að standa óáreitt í einn mánuð fyrir skemmdarvörgum.
Geitin var hér í sinni þriðju heimsókn en sú fyrsta fékk skjótan endi þegar brennuvargar kveiktu í henni. Í fyrra þurfti geitin að berjast við íslenskan vetur í Kauptúni og fauk um koll einn daginn.