Fjölmargir fylgdust með því þegar ljósin á jólatrénu sem íbúar Óslóar færðu Reykvíkingum voru tendruð síðdegis. Var það hinn sex ára norsk-íslenski Jörundur Ísak Stefánsson sem tendraði ljósin á trénu í ár. Sannkallaður jólasnjór féll á höfuðborgarsvæðinu síðdegis. Hann hefur tekið upp að mestu enda hitastigið fyrir ofan frostmark.
Íbúar Óslóar færðu Reykvíkingum fyrsta grenitréð að gjöf fyrir rúmum sextíu árum en tréð hefur ævinlega hefur verið sett upp á Austurvelli. Borgarbúar hafa lengi fagnað þessari vinargjöf fyrsta sunnudag í aðventu með hátíðlegum söng og skemmtilegum uppákomum.
Dagskráin hófst með leik Lúðrasveitar Reykjavíkur, Dómkórinn tók síðan við og söng nokkur lög undir stjórn Kára Þormar.
Dag Wernø Holter, sendiherra Noregs á Íslandi, og Tone Tellevik Dahl, formaður heilbrigðis- og félagsmálanefndar Óslóarborgar, afhentu Reykvíkingum tréð að gjöf og Jón Gnarr borgarstjóri flutti ávarp en hann tók þátt í að höggva tréð í ár.
Tréð er rúmlega 12 metra hátt og skreytt fögrum ljósum, jólastjörnu og jólaóróa Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra en í ár er það Stúfur sem prýðir hann.
Stúfur er sjöundi óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélagsins og rennur allur ágóði af sölu hans til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna.