Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, sagðist fyrir dómi í morgun ekkert vita hvað gerst hefði frá því hann skrifaði undir lánasamning við Vafning sem leiddi til þess að lánið var greitt til Milestone en ekki Vafnings.
Aðalmeðferð í máli á hendur þeim Guðmundi og Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, hófst í morgun, en eins og komið hefur fram eru þeir ákærðir fyrir umboðssvik. Lárus gaf skýrslu fyrstur og var greint frá skýrslutökunni á mbl.is.
Næst var röðin komin að Guðmundi sem, eins og Lárus, neitar sök. Hann sagðist hafa skrifað upp á lánasamning við Vafning um klukkan tvö föstudaginn 8. febrúar 2008. Eftir það hafi hann farið á fund „úti í bæ“. Skömmu síðar var hins vegar upphæðin, tíu milljarðar króna, greidd út - í evrum - til Milestone en ekki Vafnings. Þetta telur sérstakur saksóknari að hafi verið liður í fléttu Glitnis og Milestone.
Guðmundur sagðist ekki vita hvað gerðist eftir að hann skrifaði undir og taldi hann að lánið myndi renna til Vafnings, eins og ákveðið hefði verið. „Ég kann ekki skýringar á þessu,“ sagði Guðmundur en taldi skýringarnar helstar að eitthvað hefði komið upp á á síðustu stundu sem orðið hefði til þess að ekki var hægt að greiða til Vafnings. Það hefði leitt til þess að Milestone tók lánið yfir helgina, en Vafningur svo tekið við því eftir hana.
Hann sagði að þetta hefði því aðeins verið bókhaldslegt mál fyrir bankann, lánið hefði aldrei verið til Milestone og engin áhætta hefði skapast fyrir bankann af þessu. Líklega hefði ekki verið búið að stofna Vafning í kerfi bankans og það ekki tekist á föstudeginum. Það hefði svo verið gert á sunnudegi og gögn væru í málinu sem sýndu fram á það.
Þá kvaðst Guðmundur ekki vita hver hefði tekið ákvörðun um að greiða lánið til Milestone, en ekki kæmu margir til greina.
Skýrslutökum yfir þeim Lárusi og Guðmundi er lokið og hefjast skýrslutökur yfir vitnum eftir hádegið. Um þrjátíu vitni eru boðuð fyrir dóminn en talið er að aðalmeðferðinni ljúki á föstudag.