Gillz hyggst stefna fjórum fyrir meiðyrði

Egill Einarsson.
Egill Einarsson. Morgunblaðið/Kristinn

Fjórum einstaklingum verður stefnt fyrir meiðyrði í garð Egils Einarssonar, Gillzeneggers. Þetta staðfestir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Egils. Hann segir umbjóðanda sinn hafa sýnt opinberri umræðu um sig ótrúlega þolinmæði, en nú sé mælirinn fullur.

Um er að ræða þrenn ummæli sem birtust á Facebook-síðu sem stofnuð var í tengslum við mótmæli við viðtal tímaritsins Monitors við Egil í þar síðustu viku. Fjórða tilvikið varðar mynd af Agli sem dreift var á netinu.

Þeir sem stefnt verður gengu, að sögn Vilhjálms, harðast fram í umræðunni. Hann segir að fólkið, tveir karlar og tvær konur, hafi fullyrt með skrifum sínum og myndbirtingunni að Egill væri nauðgari, án þess að setja við það fyrirvara af neinu tagi.

„Ég minni á það í þessu sambandi að málið gegn honum var látið niður falla. Þess vegna hljóta þessi ummæli að hafa verið látin falla gegn betri vitund þeirra sem létu þau frá sér fara,“ segir Vilhjálmur.

Fer fram á miskabætur

Ekki er búið að birta stefnuna, eftir á að taka endanlega ákvörðun um kröfugerðina, en farið verður fram á miskabætur frá fólkinu og mun hver krafa hljóða upp á hálfa milljón króna og verður féð látið renna til góðgerðarmála. 

„Ég sendi þeim öllum kröfubréf, þar sem ég bauð þeim að draga ummælin til baka gegn þessari greiðslu. Þrjú þeirra svöruðu, en það var ekki með fullnægjandi hætti. Þess vegna hvatti ég þau til að leita til lögmanns og mér skilst að einhver þeirra hafi þegar gert það.“

Refsiverðar aðdróttanir sem verður að svara fyrir

„Umbjóðandi minn hefur sýnt umræðunni ótrúlega þolinmæði og hefur látið margt yfir sig ganga. En við þetta verður ekki unað, að fólk leyfi sér svona ummæli ítrekað. Þetta eru einfaldlega refsiverðar aðdróttanir sem fólk verður að svara fyrir.“

Að sögn Vilhjálms er hámarksrefsirammi fyrir refsiverða aðdróttun tveggja ára fangelsi. Oft sé þó ekki dæmd refsing í málum af þessu tagi, heldur sé fólki gert að greiða lögfræðikostnað eða sektir.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert