„Það er orðin stefnubreyting með fjárlagafrumvarpinu. Nú á að auka útgjöld með nýjum sköttum á atvinnulífið. Boðskapurinn frá ríkisstjórninni er sá að nú sé hægt að byrja veisluna með útgjöldum til margvíslegra hluta á kostnað atvinnulífsins.“
Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um bandorminn, breytingar á lögum sem varða tekjuhlið fjárlaga, sem kynntur var fyrir helgi.
Vilhjálmur segir að skattahækkanirnar þrengi að svigrúmi fyrirtækja til að hækka laun 1. febrúar í samræmi við kjarasamninga.