Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, sagðist ekki hafa vitað af því að lánveiting upp á tíu milljarða króna hafi farið til Milestone 8. febrúar 2008. Hann sagðist hafa staðið í þeirri trú að lánið hefði runnið til Vafnings, eins og staðið hefði til.
Lárus gaf skýrslu við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun en hann er ásamt Guðmundi Hjaltasyni, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, ákærður fyrir umboðssvik.
Í lok janúar 2008 tilkynnti bandaríski bankinn Morgan Stanley að yfirvofandi væri gjaldfelling láns eignarhaldsfélagsins Þáttar International, en Milestone var í ábyrgð fyrir lán Þáttar.
Áhættunefnd Glitnis ákvað á fundi 6. febrúar 2008 að lána óstofnuðu félagi utan Milestone-samstæðunnar umrædda fjárhæð. Þannig mátti komast framhjá reglum bankans um bann við stórum áhættuskuldbindingum.
Félagið var stofnað daginn eftir og nefnt Vafningur. Í ákæru segir að þegar greiðslan átti að fara fram hafi Vafningur enn verið eignalaust félag með hálfa milljón króna í hlutafé og ekki hægt að lána því svo háa upphæð. Því hafi Lárus og Guðmundur ákveðið að lána upphæðina Milestone, sem átti að greiða það til baka þremur dögum síðar.
Sérstakur saksóknari segir að með ákvörðun sinni hafi Lárus og Guðmundur farið út fyrir heimildir sínar auk þess sem heildarlánveitingar bankans til félagasamstæðu Milestone fór 4,1 milljarð króna umfram heimildir.
Lárus hafnaði því alfarið að Milestone hefði verið lánað umrætt sinn. Hann sagðist engar skýringar hafa á því að lánið rann til Milestone umræddan dag, þ.e. 8. febrúar. „Það virðist ekki hafa verið búið að stofna Vafning í kerfum bankans. En Vafningi var lánað, enda var það það sem á endanum gerðist,“ sagði Lárus.
Lárus sagðist hafa undirritað lánasamning við Vafning 8. febrúar ásamt veðskjali. Hins vegar liggur einnig fyrir að hann skrifaði undir svonefnd fleiri skjöl, meðal annars það sem kvað á um greiðsluna til Milestone. Lárus kannaðist ekki við að hafa skrifað undir það skjal og taldi hugsanlegt að því hefði verið breytt eftir undirskrift sína. „Ég hefði aldrei undirritað þetta skjal hefði ég talið að það skapaði hættu fyrir bankann.“
Hann sagði að það virðist hafa verið óviljandi að nafn Vafnings vantaði í kerfi bankans og það hafi verið óviljandi að greiðslan fór til Milestone. Þetta hafi þó aðeins verið bókfærsluatriði.
Ákæruvaldið spurði nokkuð út í stöðu bankans þegar lánið var veitt og fékk staðfest hjá Lárusi að svo gott sem hafði verið tekið fyrir lánveitingar, sérstaklega í erlendri mynt. Spurður hvort þessi lánveiting hafi verið í takt við það sagði Lárus, að hagsmunamatið hefði verið rétt. „Það er ekkert launungarmál að þetta var lánveiting sem bankinn kaus ekki að fara út í. Þetta var klárt hagsmunamat og það var rétt fyrir bankann að fara út í þetta.“
Lárus sagði að þetta hefði ekki verið auðvelt mál en ástæða þess að vandamál Milestone var leyst var sú að það hefði getað orðið vandamál Glitnis. Hefði gjaldfall orðið hjá Milestone hefði lausafjárstaða bankans versnað enn frekar. Með því hefðu einnig allar eignir Milestone verið komnar í uppnám og þar með 34 milljarðar fyrir Glitni sem bankinn átti útistandandi hjá Milestone.
Spurður af dómara hvort gjaldþrot Milestone hefði getað komið bankanum um koll staðfesti Lárus það.
Skýrslutöku yfir Lárusi er lokið og næst verður tekin skýrsla af Guðmundi Hjaltasyni.