Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, hefur gefið DV kost á því að draga ummæli um einkalíf hans til baka. Að öðrum kosti áskilur hann sér rétt til að leita réttar síns.
Í yfirlýsingu frá Stefáni Einar segir að síðustu daga hafi fjölmiðillinn DV vegið að æru hans og starfsheiðri í umfjöllun um einkalíf hans. „Þar er ósönnum fullyrðingum haldið fram og m.a. sagt að ég hafi ráðið sambýliskonu mína til starfa hjá félaginu. Það er ekki sannleikanum samkvæmt. Á morgun mun ég krefja ritstjóra DV og viðkomandi blaðamann um að draga ummæli sín til baka. Að öðrum kosti áskil ég mér rétt til þess að leita réttar míns með þeim aðferðum sem mér eru færar,“ segir í yfirlýsingunni.
Svo segir:
„Mikilvægt er að halda það sem sannara reynist. Það gildir einnig í þessu máli. Ég mun halda áfram að vinna að framgangi VR og þeirra hagsmuna sem því er trúað fyrir. Persónulegar árásir DV gagnvart mér munu engu breyta þar um.
Með aðventukveðju,
Stefán Einar Stefánsson ,
formaður VR“