Kulnun í starfi er að aukast

Mikið álag er á starfsmönnum Landspítala.
Mikið álag er á starfsmönnum Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Flest bendir til þess að kulnun í starfi hafi aukist meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Landspítalanum. Sigrún Gunnarsdóttir lektor í hjúkrunarfræði segir fullt tilefni til að bregðast við þessu vandamáli.

Þetta kom fram í fyrirlestri sem Sigrún flutti á málþingi hjúkrunarfræðideildar í dag. Sigrún byggði rannsókn sína á niðurstöðum þriggja kannana sem gerðar voru 2002, 2008 og 2010 á vinnuaðstæðum hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum. Síðasta könnunin náði reyndar einungis til sjúkraliða.

Út frá könnuninni voru reiknuð stig og litið var svo á að ef niðurstaðan var undir 18 væri lítil einkenni um kulnun í starfi. Útkoma á bilinu 19-26 var nálægt meðaltali, en ef útkoman var yfir 27 var litið svo á að mikið væri um kulnun í starfi.

Útkoman úr fyrstu könnuninni frá árinu 2002 var 13,7. Könnunin frá 2008 sýndi fram á marktæka aukningu, en þó ekki verulega eða 15,2. Niðurstaða könnunar sem gerð var meðal sjúkraliða árið 2010 var 26,8 sem þýðir að kulnun í starfi er veruleg.

Sigrún sagði ekki hægt að fullyrða að kulnun í starfi væri eins mikið vandamál hjá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, en út frá þessum niðurstöðum væri hægt að draga þá ályktun að þetta væri vaxandi vandamál og það væri fullt tilefni til að bregðast við.

Sigrún sagði að breytingar sem orðið hefðu á starfi hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraliða væru í þá átt að verkefnin yrðu flóknari og minni tími væri til samskipta, en allar rannsóknir sýndu að samskipti á vinnustað skiptu miklu máli varðandi ánægju í starfi.

Sigrún sagði ennfremur að allar rannsóknir sýndu að samskipti á vinnustað og stjórnun hefðu úrslitaáhrif á líðan og árangur í starfi.

Sigrún sagði að sambærilegar kannanir meðal hjúkrunarfræðinga erlendis sýndu að kulnun í starfi væri víða vandamál, t.d. í Bandaríkjunum. Miðað við könnunina frá árinu 2002 hefði þetta verið minna vandamál hér en erlendis, en könnun meðal sjúkraliða frá árinu 2010 benti til að kulnun í starfi væri komin upp fyrir það sem er erlendis.

Sigrún var spurð út í mun á starfaðstæðum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og hvort þessi munur gæti haft áhrif á niðurstöðuna. Hún sagði að rannsóknir sýndu að frelsi til ákvarðana væri þáttur sem skipti miklu máli varðandi starfsánægju fólks. Það væri svo að hjúkrunarfræðingar hefðu meira frelsi til að taka ákvarðanir í starfi sínu en sjúkraliðar og þessi vegna væri líklegt að kulnun í starfi væri ekki eins mikið vandamál meðal þeirra og það væri meðal sjúkraliða.

Sigrún sagði að hættan á kulnun í starfi ykist mikið ef það vantaði starfsfólk. Ef það væru færri hendur til að skila sömu vinnu hefði það mikil áhrif á líðan starfsfólks. Annað sem skipti miklu máli væri framkoma næsta yfirmanns og þjónustulund hans. Það skipti líka miklu máli að stjórnendur hlustuðu á starfsfólk og að samskiptin væru uppbyggileg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka