Atkvæðagreiðsla sem fram fór á Alþingi í gær eftir 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga 2013 var lengsta samfellda atkvæðagreiðslan sem fram hefur farið í seinni tíð á Alþingi. Hún stóð linnulaust í fjórar klukkustundir og 24 mínútur.
Ein atkvæðagreiðsla hefur staðið lengur og fór hún fram 21. desember 1985 eftir 3. umræðu um fjárlög ársins 1986. Sú stóð í fjórar stundir og 26 mínútur. Þá var gert matarhlé en ekkert hlé var gert á atkvæðagreiðslunni nú.
„Þetta er langlengsta atkvæðagreiðslan sem er samfelld,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í Morgunblaðinu í dag um hina óvenjulöngu atkvæðagreiðslu sem hófst laust eftir klukkan 10.30 í gærmorgun og lauk ekki fyrr en rétt fyrir klukkan 15.00.