Kjaraviðræðum Félags grunnskólakennara við Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Þær snúast ekki um laun, heldur um hvernig tryggja megi gæði skólastarfs. Meðal þess sem kennarar hafa bent á er hámarksfjöldi nemenda í bekk og aukinn tími til að sinna umsjónarkennslu.
Fyrr á þessu ári var gerð viðamikil skoðanakönnun meðal grunnskólakennara og liggja niðurstöður hennar m.a. til grundvallar viðræðunum. „Það var bókun í kjarasamningnum okkar 2011 að störf kennara yrðu skoðuð í samráði við sveitarfélögin. Niðurstöður þess eru m.a. það sem við horfum til í þessum viðræðum,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.
„Viðræðum okkar við sveitarfélögin átti að ljúka 1. desember, en það var sameiginlegt mat aðila að of mikið bæri á milli og við ákváðum því að vísa málinu til ríkissáttasemjara.“
Ólafur segir að sveitarfélögin leggi einkum áherslu á tvennt. Annars vegar að binda vinnutíma kennara meira á vinnustaðnum, hins vegar að stytta vinnuvikuna og fjölga vinnudögum kennara á móti. „Samkvæmt kjarasamningum er ekkert sem kemur í veg fyrir að binda viðveru kennara meira í skólunum. En ég hef heldur ekki heyrt nein fagleg rök sem mæla með því.“
Eitt af því sem kom í ljós í skoðanakönnuninni er að kennarar töldu að setja þyrfti reglur um hámarksfjölda nemenda í bekk, en engar reglur kveða á um það í dag.
„Annars er fjöldinn ekki allt, við höfum líka verið að hugsa þetta út frá nemendagildum, því að sumir nemendur þurfa meiri kennslu en aðrir og væru þá með hærra nemendagildi. Þannig gætu verið mismargir nemendur í bekk, það færi eftir nemendagildunum. Þá gætum við kannski fyrst farið að tala um skóla án aðgreiningar, því að núna erum við með marga nemendur, bæði getumikla og getuminni, sem ekki fá þá þjónustu sem þeir þurfa,“ segir Ólafur.
Einnig kom fram í skoðanakönnuninni að umsjónarkennarar þurfa meiri tíma til að sinna umsjónarkennarahlutverkinu. „Eins og staðan er í dag eru allir með sömu kennsluskyldu, óháð því hvort þeir eru með umsjón. En umsjónarkennslan er orðin svo tímafrek, það þarf að bregðast við því.
Við erum ekki í launabaráttu. Þetta snýst ekki um krónur og aura. Við erum aðilar að stöðugleikasáttmálanum sem gildir til 2014 og ætlum að halda hann. Það sem við erum að tala um er að við erum með kennara út um allt land sem vinna baki brotnu en ná samt aldrei að klára verkefnin sín. Hvorki við né sveitarfélögin miðum að því að hækka launin sem slík. En kannski gætu einhverjar af þessum breytingum haft í för með sér launahækkanir fyrir einhverja eða að það þurfi að fjölga kennurum. Tilgangurinn er að bæta starfaðstæðurnar og auka gæðin í skólastarfinu,“ segir Ólafur.