Þrír stjórnarmenn hjúkrunarheimilisins Eirar áttu í dag fund með fulltrúa embættis sérstaks saksóknara. Á fundinum afhentu þeir gögn varðandi stjórnarhætti hjúkrunarheimilisins og óskuðu eftir því að athugað yrði hvort sérstakur saksóknari teldi tilefni til að rannsaka starfshætti Eirar á undanförnum árum.Stefán Benediktsson, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Björn Agnar Magnússon fóru á fund sérstaks saksóknara í dag. „Tilefnið er stjórn Eirar undanfarin ár og gögn varðandi það,“ segir Stefán í samtali við mbl.is. „Þetta voru gögn sem við afhentum,“ segir hann aðspurður. Stefán segir að fundurinn hafi verið nokkuð langur.Spurður hvort einhver niðurstaða hafi legið fyrir að honum loknum sagði Stefán: „Þeir tóku við gögnunum og við skýrðum út fyrir þeim einstaka þætti í ferli málsins. Síðan ætluðu þeir að vera í sambandi við okkur síðar.“„Markmiðið er fyrst og fremst að menn rannsaki stjórnarhætti í þessu fyrirtæki. Það er náttúrlega meginmarkmiðið. Það er það sem maður er búinn að vera að reyna að stuðla að núna á þriðja mánuð.“
Aðspurður segist Stefán vilja láta rannsaka hvers vegna menn héldu áfram að selja og leigja íbúðir „eftir að ákveðnir stjórnarmenn, þáverandi framkvæmdastjóri og síðar stjórnarformaður, vissu að fyrirtækið stefndi í greiðsluþrot. Það er náttúrlega mjög alvarlegur hlutur“.Þá vilji hann láta rannsaka hvernig standi á því húsrekstrarsjóður Eirar, sem sé sá hluti sem lúti að rekstri öryggisíbúðanna, skuli skulda hjúkrunarheimilinu, sem sé fjármagnað af opinberu fé, 120 milljónir kr. hið minnsta.Stefán segir að svo fremi sem öll gögn séu mönnum aðgengileg eigi það ekki að taka mjög langan tíma að komast að niðurstöðu um það hvernig best sé að bera sig að í málinu.
Að sögn Stefáns hefur Magnús L. Sveinsson, stjórnarformaður Eirar, boðað til stjórnarfundar nk. föstudagsmorgun, en hann verður haldinn áður en fundur í fulltrúaráði Eirar hefst. Stefán segir að boðað hafi verið til stjórnarfundarins í kjölfar minnisblaðs sem hann, Þórunn og Björn Agnar afhentu Magnúsi þar sem þau gagnrýna fyrirhugaðan fund fulltrúaráðs harðlega. Þau segja að um ólögmætt fundarboð sé að ræða.Á fundi stjórnar 27. nóvember sl. var samþykkt að boða til fulltrúaráðsfundar 14. desember nk. Í bókuninni segir að í stað þess að boða skráða fulltrúa til fundar sendi skrifstofa Eirar frá sér bréf þann 27. nóvember þar sem óskað hafi verið eftir því við þá aðila sem standi að stofnuninni að þeir tilnefni fólk í nýtt fulltrúaráð. „Með þessu tiltæki er m.a. brotið gegn skýrum ákvæðum lögfestrar skipulagsskrár (4. gr.) um að eitt meginhlutverk fulltrúaráðs sé „að fylgjast með rekstri og vera tengiliður milli stjórnar og þeirra aðila er standa að stofnuninni“,“ segir í bókuninni.
Spurður út í framhaldið segir Stefán að rekstur hjúkrunarheimilisins Eirar sé góður og hann eigi ekki að þurfa að líða fyrir „svona hrikaleg mistök eins og hafa verið gerð í rekstri eignahlutans, það er að segja íbúðahlutans“. Þá segir hann að viðskiptagrunnur íbúðarekstursins eigi einnig að vera ágætur, þ.e. ef rétt sé að málum staðið. „Það er ekki gert á grunni viðskiptamódels sem gengur ekki upp og snerist einfaldlega um það að taka áhættu með sparifé fólks sem má segja að var alveg grunlaust um inn í hvað það var að ganga,“ segir Stefán „Við erum enn í stjórn. Í sjálfu sér þá er ekkert til í lögum eða reglum þessa fyrirtækis um að afkjósa stjórn. Menn hafa verið að reyna þrýsta á okkur að við segjum af okkur, en við höfum ekki enn séð nein góð eða gild rök fyrir því. Á meðan ekki hefur fengist niðurstaða í það hver ætlar að rannsaka þetta mál finnst okkur það okkar ábyrgðarhlutur að reyna að knýja það mál áfram,“ segir Stefán að lokum.