Léttúðugar umbúðir fyrir EFTA-dómstólnum

Dós af Tempt-eplavíni.
Dós af Tempt-eplavíni.

Reglur sem ÁTVR setti um sérmerkingar samræmast ekki EES-rétti. Reglur landsins geta ekki talist heimil takmörkun að EES-rétti gagnvart einstaklingum og rekstraraðilum þar sem tilkynningarskylda samkvæmt tilskipum 2000/13 var vanrækt.

Þetta er niðurstaða dóms EFTA-dómstólsins en hann veitti ráðgefandi álit um spurningar sem honum bárust frá Héraðsdómi Reykjavíkur um það hvort reglur landsréttar sem heimila ríkisfyrirtæki, sem hefur einkarétt til smásölu áfengis, að hafna því að taka áfenga drykki til sölu, samrýmist EES-rétti.

Málið, sem rekið er fyrir héraðsdómi, varðar tvær ákvarðanir ÁTVR. Í fyrri ákvörðuninni („synjuninni“) synjaði ÁTVR umsókn um að þrír drykkir yrðu teknir til sölu í verslunum hennar á þeim forsendum að myndmál á umbúðum bryti í bága við almennt velsæmi á Íslandi.

Í síðari ákvörðuninni („ákvörðunin um sérmerkingar“) setti ÁTVR það skilyrði fyrir samþykki sínu að innflytjandinn, HOB-vín, merkti sex mismunandi áfenga drykki með límmiðum sem á stæði: „áfengur drykkur“.

Á fyrri hluta ársins 2010 óskaði innflutningsfyrirtækið HOB-vín eftir því við ÁTVR að þrjár tegundir cider-drykkja yrði settar í sölu í verslunum ÁTVR: „Tempt 2 Apple“, „Tempt 7 Elderflower Blueberry“ og „Tempt 9 Strawberry Lime“, til reynslusölu.

Þessir drykkir eru framleiddir í Danmörku og löglega markaðssettir þar. Með tölvuskeyti 31. maí 2010 hafnaði ÁTVR umsókninni.

Eftir að innflytjandinn óskaði frekari rökstuðnings fyrir synjuninni, hélt ÁTVR því fram að umræddar vörur „Tempt Cider“ væru markaðssettar í stílhreinum og fagurlega skreyttum 33 cl áldósum, með listrænum teikningum, þar á meðal litríkum myndskreytingum af kvenmannsleggjum og að því er virtist nöktu holdi.

Ætlað að gera vöruna spennandi og ögrandi á nautnalegan hátt

ÁTVR komst að því að myndskreytingunum á dósunum væri „augljóslega ætlað að gera vöruna spennandi og ögrandi á nautnalegan hátt“ og að kynferðisleg skírskotun þeirra blasti við. Þá taldi ÁTVR að „léttúðugar myndir með nautnalegum, jafnvel lostafullum undirtón“ væru á mörkum hins almenna velsæmis.

ÁTVR taldi ekki unnt að fallast á að slík samtvinnun ímyndar og áfengis félli að vöruvalsstefnu sinni. Gilti þá einu hvort reynt hefði verði að „höfða til orku, hreysti eða skemmtilegheita eða einhverra annarra ímyndarspursmála sem hafa nákvæmlega ekkert með vöruna að gera“.

Síðan áréttaði ÁTVR að um áfengi gildi á Íslandi „önnur lögmál en um aðra neysluvöru“ og að taka þurfi mið af áfengisstefnu íslenskra stjórnvalda og hvernig hún hefði verið túlkuð, „með hófsemi, varúð og íhaldssemi að leiðarljósi“.

EFTA-dómstóllinn svaraði spurningunum sem beint var til hans á þann veg að íslensku ákvæðin sem synjunin byggðist á væru í fyrsta lagi ósamrýmanleg tilskipun 2000/13/EB.

Að mati EFTA-dómstólsins hefur það enga þýðingu að reglurnar taki jafnt til erlendra sem innlendra vara.

„Þar sem íslensku ákvæðin sem ákvörðunin um sérmerkingar var byggð á hefðu ekki verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í tilskipun 2000/13/EB og EES-rétti, taldi dómstóllinn enn fremur að ákvæðin teldust ekki heimil takmörkun að EES-rétti og þau gætu því ekki lagt skyldur á herðar einstaklingum og rekstraraðilum.

Í þriðja lagi taldi EFTA-dómstóllinn að einstaklingar og rekstraraðilar sem orðið hefðu fyrir tjóni vegna rangrar beitingar tilskipunar 2000/13/EB gætu vísað til reglna um frjálsa vöruflutninga til þess að gera íslenska ríkið ábyrgt fyrir greiðslu skaðabóta vegna brots á EES-rétti.

Í þessu samhengi yrði að vera hægt að bera fyrir sig meginreglu EES-réttar um skaðabótaábyrgð ríkisins frá þeim tíma sem ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tæki gildi.

EFTA-dómstóllinn hélt því fram að 11. gr. EES-samningsins veitti einstaklingum og rekstraraðilum réttindi sem þeir gætu reitt sig á. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að vanræksla á tilkynningarskyldu samkvæmt EES-rétti fæli í sér nægilega alvarlegt brot á EES-rétti til þess að það leiddi til skaðabótaábyrgðar ríkisins.

Það væri landsdómstólsins að ákveða hvort beint orsakasamband værii á milli vanrækslunnar og tjónsins.

Dómurinn í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka