Lárus Steindór Björnsson úr Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni (ÍA) er nú á leið til Filippseyja þar sem fellibylurinn Bopha gerði mikinn usla í síðustu viku.
Lárus verður hluti af viðbragðsteymi Nethope, sem eru regnhlífarsamtök 37 stærstu hjálparsamtaka heimsins og sérhæfa sig í fjarskiptum og tölvutækni á skaðasvæðum. Mun teymið sjá um að koma fyrstu fjarskiptatækjunum á vettvang auk þess að framkvæma þarfagreiningu og meta aðstæður út frá fjarskiptasjónarmiði á þeim svæðum er verst urðu úti.
Eftir fellibylinn hefur allt rafmagns- og fjarskiptakerfi á svæðinu legið niðri og reiknað er með að það geti tekið allt að einn mánuð að koma því aftur í gang. Eins og fólk í viðbragðsgeiranum þekkir eru fjarskipti undirstaða góðrar samhæfingar og stjórnunar aðgerða.
Lárus, sem starfar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, er hluti af fjarskiptahópi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar sem einnig sinnir fjarskiptamálum Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar. Innan hópsins er mikil þekking og reynsla, m.a. frá ferð ÍA til Haiti árið 2010, sem sóst er eftir í alþjóðlegu hjálparstarfi. Þess má geta að í teyminu er einnig Gísli Rafn Ólafsson, sem var einn af stjórnendum ÍA og starfar nú hjá Nethope.
Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að á Filippseyjum hafi yfir fimm milljón manns orðið fyrir barðinu á fellibylnum Bopha þegar hann fór yfir landið í síðustu viku. Um 740 hafa þegar fundist látnir og tæplega 900 er enn saknað.
Milli 250 og 350 þúsund manns hafa misst heimili sín og það mun taka marga mánuði og jafnvel ár að byggja aftur upp á þeim svæðum sem verst urðu úti.