Mikilvægt að íbúar verði ekki fyrir tjóni

Hjúkrunarheimilið Eir að fróðengi 1-11
Hjúkrunarheimilið Eir að fróðengi 1-11 mbl.is/Ómar

„Rannsaka þarf þetta bygginga- og skuldaferli svo ekki verði endurtekning á að eldra fólk sé vísvitandi leitt í öngstræti vegna óábyrgra stjórnunarhátta,“ segir Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður hjúkrunarheimilisins Eirar, í yfirlýsingu.

Hún segir að í dag sé mikilvægast af öllu að þeir íbúar sem séu með búseturétt verði ekki fyrir tjóni og að bjarga megi rekstri hjúkrunarheimilsins Eirar. Til þess þurfi vönduð vinnubrögð en ekki hræðsluáróður og óábyrgt baktjaldamakk.

„Frá því ég kom að þessu stjórnarborði hefur það verið einlægur ásetningur minn að vinna faglega og af heiðarleika við að gæta hagsmuna þeirra sem njóta þjónustu á Eir, Eirarhúsum, Eirhömrum og Eirborgum.  Einnig að standa vörð um að reksturinn væri með heilbrigðum hætti.

Það varð fljótt ljóst að á Eir og útibúum þess er veitt frábær þjónusta og mjög góð umönnun sem er öllum starfsmönnum til sóma.

Hins vegar þegar leið á stjórnarsetuna fóru að koma upp áhyggjuefni varðandi rekstur og fjármálastöðu Eirarsamstæðunnar. Unnið var að hagræðingu og leitað eftir tilboðum til að létta stöðuna eftir því sem stjórn var upplýst um,“ segir Þórunn.

Hún segir að í október hafi þáverandi stjórnarformaður sagt af sér og frá þeim tíma hafi geisað moldrok um leiðir og tilvist fulltrúaráðs og stjórnar. „Viðtakandi formaður vildi við þessar aðstæður draga alla með sér þegar hann hugðist yfirgefa stjórn,“ segir í yfirlýsingunni.

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir.
Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert