Hópar frá tveimur björgunarsveitum leita nú á Þorskafjarðarheiði á Vestfjörðum að ferðafólki sem sendi neyðarkall um kl. 14 í dag. Enn hafa engin ummerki fundist á heiðinni, fyrir utan tvær jeppaslóðir sem lágu út af veginum.
Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg segir að um 10-15 manns séu nú við leit á svæðinu. Heiðin sé stór en leitað verði fram eftir. Hann segir ekkert hafa farið á milli mála að fólkið hafi verið að kallað eftir hjálp. „Orðrétt sögðu þau: Mayday, mayday, föst inni í bíl uppi á heiði,“ segir Jónas. Svo hafi heyrst miklir skruðningar og læti en svo heyrðist sagt „Þorskafjarðarheiði“ og þar er nú leitað.
Ekki er hægt að staðsetja neyðarkallið mjög nákvæmlega og því er leitarsvæðið nokkuð stórt. Leitað verði frameftir kvöldi en það er fólk frá björgunarsveitum Landsbjargar á Hólmavík og Reykhólum sem leitar.
Spurður hvort um gabb geti verið að ræða segist Jónas ekki vilja segja til um það á þessari stundu.
Frétt mbl.is: Neyðarkall frá Þorskafjarðarheiði