Neyðarkall barst frá Þorskafjarðarheiði

Klukkan rétt rúmlega tvö í dag barst Landsbjörg neyðarkall á neyðarrás VHF-fjarskiptakerfisins frá ferðalöngum sem voru á ferð á Þorskafjarðarheiði. Vegna slæmra skilyrða tókst ekki að fá ítarlegar upplýsingar frá þeim sem neyðarkallið sendu en svo virðist sem þeir séu á bíl eða bílum á ferð.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Hólmavík og Reykhólum eru nú á leið á heiðina til að hafa uppi á ferðalöngunum og aðstoða þá til byggða. Á þessari stundu er ekki vitað um hvað marga er að ræða né hverjar aðstæður þeirra eru, segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert