Síðdegis var ekki vitað hvernig refsifanginn Matthías Máni Erlingsson slapp úr fangelsinu á Litla-Hrauni, þaðan sem hann afplánaði dóm fyrir tilraun til manndráps. Á mynd sem lögregla birti er talið að Matthías Máni sé að fara í útivist skömmu áður en uppgötvaðist að hann væri horfinn.
Hvorki hefur tekist að ná í Margréti Frímannsdóttur, fangelsisstjóra á Litla-Hrauni, né Pál Winkel, fangelsismálastjóra, í dag eða kvöld. Samkvæmt heimildum mbl.is var ekki vitað síðdegis hvernig Matthías Máni komst út fyrir girðingu Litla-Hrauns og þaðan, að öllum líkindum á Selfoss. Rannsókn stendur yfir.
Matthías slapp upp úr hádegi í dag og beinist leitin að suðvesturhorni landsins. Samkvæmt heimildum mbl.is telur lögreglan að Matthías Máni sé hættulegur. Því til staðfestingar má benda á að kona sem hann réðst á og reyndi að myrða í apríl síðastliðnum er undir vernd lögreglu.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var einnig kölluð út vegna stroks Matthíasar Mána.
Leit lögreglu heldur áfram og eru þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Matthíasar Mána beðnir um að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma 480-1010.
Matthías Máni Erlingsson er 24 ára, fæddur 15. október 1988. Hann er 171 cm á hæð, um 70 kg og grannvaxinn. Síðast þegar hann sást var hann klæddur grárri hettupeysu, með svarta prjónahúfu á höfði og í dökkum buxum.