Ljúka umræðu um rammaáætlun á morgun

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli

Samkomulag náðist í kvöld á fundi formanna og þingflokksformanna á Alþingi um þinghald fyrir jól. Ákveðið hefur verið að ljúka umræðu um rammaáætlunina á morgun en atkvæðagreiðslu um málið verður hins vegar frestað til 14. janúar.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hefur staðfest þetta í samtali við mbl.is.

Samkomulag er um að fjárlög verða næst tekin á dagskrá á morgun og um afgreiðslu ýmissa annarra mála sem ljúka þarf fyrir áramót.

Ásta Ragnheiður segir að fyrirsjáanlegt sé að þinginu takist ekki að ljúka störfum fyrr en á laugardag.

Þingfundi var slitið korter yfir tíu í kvöld, en þá hafði umræðu um rammaáætlunina staðið yfir í allan dag. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var maður fluttur á sjúkrahús skömmu áður á fundinum var slitið, en hann hafði skaðað sig inni á salerni skammt frá þingpöllunum.

Nánari upplýsingar liggja ekki fyrir um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert