Á þremur árum urðu 8 slys á Reykjanesbraut með þeim hætti að bíl var ekið út af og yfir á gagnstæðan veghluta. Einskær heppni virðist hafa ráðið því að aldrei varð banaslys. Lögreglan á Suðurnesjum vakti athygli á þessu í bréfi til Vegagerðarinnar, sem hefur ákveðið að setja upp víravegrið milli akbrautanna alla leið frá Hafnarfirði til Keflavíkur.
„Það hefur verið tekin óformleg ákvörðun innan Vegagerðarinnar um að þetta verði gert,“ segir Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurnesjum. Að sögn Jónasar er um 24 km kafli Reykjanesbrautarinnar sem er tvöfaldur án vegriðs til að aðskilja akstursáttirnar.
Sekúndubrot á 100 km hraða
Banaslys á Reykjanesbraut voru svo gott sem árlegur viðburður áður fyrr. Flest alvarleg slys verða þar vegna framanákeyrslu eða útafaksturs í hraunið. Mikill árangur náðist með tvöföldun vegarins fyrir um 10 árum, en brautin hefur í raun enn ekki verið fullkláruð með tilliti til umferðaröryggis. Á 90-100 km hraða tekur það bíl aðeins sekúndubrot að kastast yfir geilina og á akbrautina á móti.
„Á sínum tíma þegar vegurinn var tvöfaldaður var ekki talið nauðsynlegt að setja upp vegrið. Þá var talið að þetta væri nokkuð fullnægjandi, að hafa svona breitt bil á milli. En svo hefur annað komið í ljós,“ segir Jónas. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra svaraði nýlega fyrirspurn á Alþingi um hvort til stæði að hækka hámarkshraða á Reykjanesbraut, eins og oft hefur verið rætt, með þeim orðum að ekki væri búið að uppfylla skilyrði um öryggismál svo það væri hægt.
Lögreglan sendi formlegt bréf
Slys sem varð snemma morguns í október varð til þess að lögreglunni á Suðurnesjum þótti tilefni til aðgerða. Ökumaður leigubíls missti þá stjórn á bílnum í hálku, rann ofan í geilina milli akstursstefna, kastaðist upp úr henni yfir gagnstæðan veghluta og endaði úti í hrauninu handan hans. Leigubíllinn gjöreyðilagðist en bílstjórinn slapp ómeiddur. Mbl.is fjallaði um slysið og fengust þá þau svör frá Vegagerðinni að vegna kostnaðar, sem ekki væri gert ráð fyrir í samgönguáætlun, stæði ekki til að setja upp vegrið meðfram Reykjanesbrautinni allri, og ekki þar sem slysið varð.
„Þetta atvik varð til þess að við fórum að skoða í okkar gögnum hversu mörg svona slys hefðu átt sér stað,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum. Skoðað var tímabilið frá 1. janúar 2009 til 1. nóvember 2012 og reyndist það samtals hafa gerst 7 sinnum á þeim tíma að ökutæki endaði för sína á eða við gagnstæða akbraut, en fleiri slík slys urðu einnig áður þótt ekki hafi verið farið lengra aftur. „Í ljósi þessa þótti okkur rétt að senda formlegt bréf til vegamálastjóra og vekja athygli á þessu.“
Stuttu eftir að bréfið var sent varð enn á ný samskonar óhapp, þegar jepplingur valt milli akbrauta á Reykjanesbraut við Kúagerði í veg fyrir gagnstæða umferð. Fjórir voru í bílnum og taldi lögregla það mikla mildi að enginn slasaðist illa. „Einhvern veginn hefur þetta alltaf sloppið slysalaust. En ég kom nú sjálfur að þessu síðasta máli, sá bara bíl á hliðinni á akreininni á leiðinni til Keflavíkur og svo sá maður förin á akreininni til Reykjavíkur,“ segir Skúli. Lögreglan á Suðurnesjum er að sögn Skúla afar ánægð með svör Vegagerðarinnar og fyrirheit um að sett verði upp vegrið í áföngum.
Gæti tekið 3-4 ár
„Það er ekki komin tímaáætlun, þetta gæti tekið 3-4 ár en við getum vonandi byrjað næsta vor,“ segir Jónas. Vegagerðin hefur um 100 milljóna króna fjármagn á ári til umferðaröryggismála, samkvæmt samgönguáætlun og verður sótt í þann sjóð til þessa verkefnis.
Unnið hefur verið ötullega að uppsetningu vegriðs á tvöföldum vegarköflum innan höfuðborgarsvæðisins þar sem umferð er mikil, s.s. um Vesturlandsveg til Mosfellsbæjar og á Reykjanesbraut frá Breiðholti til Kaplakrika. Því verki lýkur brátt og verður sjónum þá beint að leiðinni til Keflavíkur.
„Það hafa sem betur fer ekki orðið alvarleg slys þarna ennþá enda er tiltölulega lítil umferð miðað við að þetta er tvöfaldur vegur, þannig að líkurnar eru ekki miklar,“ segir Jónas. „En þetta er alltaf hægt. Það getur allt gerst, virðist vera, þegar menn missa stjórn á bílnum sínum.“