Samþykkt var á borgarstjórnarfundi í dag að Reykjavíkurborg kaupi Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur fyrir 950 milljónir króna og leigi einn hitaveitugeymi við húsið. Sjálfstæðismenn segja að kaupin séu enn eitt dæmið um að borgarbúar greiði fyrir „björgun OR“.
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins segir að málið hafi verið afgreitt af meirihluta borgarstjórnar, þrátt fyrir ítrekaðar óskir annarra borgarfulltrúa um að fresta afgreiðslu eða aflétta trúnaði af gögnum er varði afhendingaröryggi hitaveitunnar í vesturhluta borgarinnar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu við afgreiðslu málsins bóka eftirfarandi:
„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að söluferli vegna Perlunnar. Tilraun til að selja Perluna á almennum markaði á síðasta ári mistókst vegna óskýrra forsendna og undirbúnings.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa eindregið stutt sölu eigna OR og studdu það að selja Perluna á frjálsum markaði, en með skýrum ákvæðum um nýtingu og skipulag. Samningurinn er gerður með fyrirvara um viljayfirlýsingu frá ríkinu um að taka húsið á leigu fyrir náttúruminjasýningu. Enginn rökstuðningur liggur fyrir um hvort hagkvæmast sé fyrir ríkissjóð að náttúruminjasafn sé í Perlunni eða á öðrum stað. Allt er varðar þessa samninga ber þess merki að skattborgarar eru látnir greiða fyrir svokallaða „björgun Orkuveitunnar“ enda hefur reynst fyrirtækinu erfitt að fá endurfjármögnun á lánamörkuðum eftir að núverandi meirihluti tók við.
Nú er ákveðið að Reykjavíkurborg kaupi Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur á 950 milljónir króna. Hafa ber í huga að borgin á 94% í Orkuveitu Reykjavíkur og því er hér aðeins um að ræða til flutning fjármagns úr einum vasa í annan. Á tímum þegar gæta þarf aðhalds á öllum sviðum og forðast áhættu sem ekki er ljóst hvert leiðir, telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þetta óverjandi aðgerð sem ekki tekur mið af fjárhagslegum hagsmunum Reykjavíkurborgar eða Reykvíkinga.“