Stúlkurnar bíða enn ákæru í Prag

Kókaínið, sem stúlkurnar smygluðu, var falið innan undir klæðningu í …
Kókaínið, sem stúlkurnar smygluðu, var falið innan undir klæðningu í töskunni. Ljósmynd/celnisprava.cz

Ekki hefur verið ákært í máli stúlknanna tveggja sem voru handteknar í Tékklandi í byrjun nóvember vegna gruns um fíkniefnasmygl. Þær hafa verið í fangelsi síðan þá og verða þar uns ákæra verður gefin út, sem verður að öllum líkindum fyrri hluta febrúarmánaðar.

„Þeir gáfu sér þrjá mánuði í þetta [að gefa út ákæru] og vonandi tekur þetta ekki lengri tíma,“ segir Þórir Gunnarsson, aðalræðismaður Íslands í Tékklandi í samtali við mbl.is.

Stúlkurnar, sem báðar eru 18 ára, eru hvor í sínu fangelsinu í höfuðborginni Prag, önnur er í Ruzyně- og hin í Pankrác-fangelsinu. Að sögn Þóris er aðbúnaður þeirra lélegur. „Þessi fangelsi eru engin hótel, Aðbúnaðurinn er gjörólíkur því sem við þekkjum hérna á Norðurlöndunum,“ segir hann.

Þórir hefur verið staddur hér á landi undanfarnar vikur og hefur því ekkert hitt stúlkurnar um tíma, en hann hefur heimsótt þær tvisvar í fangelsið. „Um leið og ákæran er komin, þá breytast aðstæður. En það er ekkert verið að flýta sér, ég veit að yfirvöld vilja vinna málið vel. Þrátt fyrir að málið verði upplýst, þá losna þær ekkert úr fangelsi, þær munu vera þar þangað til ákæra verður gefin út. Þá munu hlutirnir aftur á móti ganga hratt fyrir sig,“ segir Þórir. „Þær eru með tékkneska lögmenn og fá að auki aðstoð túlks, en eins og málið er í dag þá eru þeir ekki að hitta þær oft.“

Hann segist ekki vita til þess að ættingjar eða aðstandendur stúlknanna hafi heimsótt þær í fangelsið.

„Ég held að þær hafi loksins gert sér grein fyrir því í hverju þær eru lentar. Ég vona að þær geri sér líka grein fyrir því að þetta mun ganga betur ef þær eru samvinnuþýðar við lögreglu.“

Stúlkurnar voru að koma frá Brasilíu með millilendingu í München í Þýskalandi. Tollverðir í München urðu  fíkniefnanna varir, en ákváðu að leyfa þeim að fljúga áfram til Tékklands þar sem þær voru handteknar 7. nóvember.

Frétt mbl.is: Stúlkurnar í áfalli

Kókaínið var afar vel valið.
Kókaínið var afar vel valið. Ljósmynd/celnisprava.cz
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert