Húfa sem talin er vera af Matthíasi Mána Erlingssyni, sem strauk frá Litla-Hrauni á mánudag, fannst í morgun við girðingu kringum útivistarsvæði fanganna. Girðingin er beygluð á þeim stað sem húfan fannst og því talið, samkvæmt heimildum mbl.is, að Matthías Máni hafi komist þarna út.
Matthíasar Mána er nú leitað í 3-4 kílómetra radíus út frá fangelsinu á Litla-Hrauni. Fjölmennt lið lögreglu af höfuðborgarsvæðinu og frá Selfossi sér um leitina ásamt þremur björgunarsveitum. Leitað er m.a. í útihúsum og í fjörunni við Eyrarbakka.
Lögreglan vill ekki staðfesta hvort sést hafi til Matthíasar Mána á leitarsvæðinu, en síðan hann strauk frá Litla-Hrauni á mánudagskvöld hefur lögreglu borist fjöldi ábendinga frá almenningi og eru þær allar kannaðar.
Miðstöð aðgerða lögreglu er í barnaskólanum á Eyrarbakka og er Margrét Frímannsdóttir forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni stödd þar ásamt lögreglu sem skipuleggur leitina. Þyrla Landhelgisgæslunnar er einnig nýtt til leitarinnar og sveimar nú yfir Suðurlandinu.