Afnám hafta forsenda ESB-aðildar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég tel nú enga ástæðu til þess að fúlsa við góðum ráðum frá Evrópusambandinu, hvaða skoðanir sem menn ella hafa á því, varðandi afnám haftanna og fá hjá þeim fagleg og tæknileg ráð í því efni,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem innti ráðherrann svara við því með hvaða hætti hugmyndin væri að Evrópusambandið aðstoðaði Íslendinga við að losna við gjaldeyrishöftin.

Vísaði Bjarni þar til ummæla Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra eftir ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins um stöðuna á umsókn Íslands um inngöngu í sambandið sem fram fór síðastliðinn þriðjudag. Þar hefði ráðherrann sagt að hann hefði fengið frekari staðfestingu á því að Evrópusambandið væri reiðubúið að aðstoða Íslendinga við að afnema gjaldeyrishöftin.

Spurði Bjarni forsætisráðherra með hvaða hætti þessi aðstoð ætti að fara fram. Því hefði ítrekað verið haldið fram að Evrópusambandið gæti hjálpað við að afnema höftin í tengslum við umsóknina um inngöngu í sambandið en aldrei verið verið útskýrt nákvæmlega með hvaða hætti það ætti að gerast. Sagði hann ríkisstjórnina þurfa að útskýra það fyrir bæði þinginu og þjóðinni.

Jóhanna vísaði í bréf sem borist hefði í gær frá þingmannanefnd sem sett var á laggirnar um afnám gjaldeyrishaftanna þar sem óskað hefði verið eftir fundi um málið fyrir jól með formönnum stjórnmálaflokkanna. Þar væri ætlunin að ræða um stöðu áætlunar um afnám haftanna sem og um uppgjör föllnu bankanna og með hvaða hætti væri rétt að standa að þeim. Sagðist hún fagna þeirri ósk enda væri mikilvægt að reyna að ná samstöðu um málið. Vonandi yrði hægt að boða til þess fundar á morgun.

Einungis góð ráð í boði

„Varðandi ESB og það sem háttvirtur þingmaður nefndi í því, og það sem fram hefur komið, sem sagt að ESB er tilbúið að veita okkur þá aðstoð sem að hægt er að því er varðar afnám gjaldeyrishaftanna þá held ég að það sé nú bara hið besta mál að fara yfir það og ég hef litið svo á að hér sé fyrst og fremst um faglega og tæknilega aðstoð að ræða sem að þarna er í boði,“ sagði Jóhanna en fór ekki nánar út í það um hvers konar aðstoð kynni að vera að ræða.

Bjarni benti á að ljóst væri að ríkisstjórnin væri ekki samstiga í málinu enda héldi einn stjórnarflokkurinn því fram að ekki væri hægt að afnema gjaldeyrishöftin nema með því að ganga í Evrópusambandið en hinn væri fullur efasemda í þeim efnum. Spurði hann hvort það væri ekki nokkuð langsótt að ætla að sambandið myndi gera þennan vanda Íslendinga að engu. Þá sagði hann að þegar allt kæmi til alls væru góð ráð það eina sem í boði væri hjá Evrópusambandinu.

Jóhanna neitaði því ekki en sagði sem áður er getið að ástæðulaust væri að fúlsa við góðum ráðum frá Evrópusambandinu. Sagðist hún hafa skilið bréf þingmannanefndarinnar þannig „að það hefði komið skýrt fram að það væri ekki hægt að fara inn í Evrópusambandið á meðan höftin væru við lýði og ég tel mikilvægt að við reynum að ná samstöðu um að losa þau sem fyrst.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert